Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
23.2.2009 | 21:03
Skuldabréfin seld með 50% afslætti
Skildi ég það rétt að nýju bankarnir væru að kaupa skuldabréfin vegna íbúðarlánanna með 50% afslætti, eins og kemur fram í greinargerð Framsóknarflokksins?
Ef það er rétt veldur niðurfelling skulda um 20% ekki tapi hjá nýju bönkunum, það er búið að afskrifa það í gömlu bönkunum.
Annars er þetta í raun bara eftirgjöf á vöxtum í flestum tilfellum, þar sem áfallnar verðbætur eða gengishækkun, eru í flestum tilfellum orðnar meira en 20% af stöðu lánanna. Það væri í raun eingöngu verið að gefa eftir af höfuðstól lána sem veitt voru á árinu 2008.
Leggja til 20% niðurfellingu skulda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.2.2009 | 22:31
Logo geta verið lýsandi
Ég get ekki sagt að ég sé áhugamaður um logo (merki) fyrirtækja, en samt hef ég að gamni mínu fylgst með þróun á einu það er hjá Íslandsbanka. Eftir sameiningu nokkurra banka í byrjun tiunda áratugs síðustu aldar var haldin samkeppni um logó fyrir hinn nýja banka. Fyrir valinu varð merki sem var í þremur litum, neðst var lárétt bylgja blá að lit, sem átti að tákna sjóinn. Upp frá henni kom önnur bylgja á ská, græn að lit sem átti að tákna tengslin við landið, og fyrir ofan var gulur punktur sem átti að tákna sólina, enda björt framtíð hjá þessum nýja banka.
Nokkrum árum seinna sameinaðist Íslandsbanki Fjárfestingabanka Atvinnulífsins (FBA). Þá varð til banki sem um tíma hét Íslandsbanki FBA. Um svipað leiti var merki bankans breytt, bylgjan sem tákna átti landið var horfin. Ég sagði þá í gríni að bankinn væri búinn að sigla svo langt út á sjó að þeir sæju ekki lengur til lands. Þeir hefðu þó sólina til að sigla eftir svo þeir villtust ekki. Þessi banki hóf mikla útrás, og ætlaði sér að verða alþjóðlegur banki sem opnaði starfsstöðvar í öðrum löndum.
Nafnið Íslandsbanki þótti ekki nógu gott fyrir bankann svo nafninu var breytt í Glitni. Logoinu var líka breytt, því nú hvarf sólin. sjórinn var einn eftir og allt var í logandi rauðum lit í kring. Það þekkja allir hvernig saga þessa góða banka endaði.
Það virðist að merki bankans hafi verið meira lýsandi um starfsemi og stöðu hans en ég gerði mér grein fyrir.
10.2.2009 | 22:15
1,5 milljóna kr. lækkun eigna á hvert mannsbarn
181 milljarða tap lífeyrissjóða segir ekki nema hálfa söguna um skelfilega lélega afkomu þeirra á síðasta ári og er í besta falli léleg blekking á því hversu miklu þeir töpuðu.
Á vefsíðu Landssambands lífeyrissjóða www.ll.is/?i=2&f=8&o=1016 er tafla sem sýnir stöðu þeirra um áramótin 2007-8 annars vegar og síðustu áramót hins vegar. Þar sést að að nafnvirði lækkaði eign þeirra um 40 milljarða. Ef eignin er uppreiknuð eins og um verðtryggða eign væri að ræða kemur í ljós að eignirnar lækka um 352 milljarða kr. Miðað við upplýsingar á vefsíður ríkisskattstjóra, reiknaði ég út að innborguð iðgjöld umfram greiðslur vegna lífeyris væru um það bil 40 milljarðar kr. árið 2007. Með því að bæta þeirri fjárhæð við framangreint tap er tap þeirra á árinu 2008 nærri 400 milljarðar kr. Til samanburðar nema heildarútgjöld ríkisins samkvæmt fjárlögum ársins 2009 500 milljörðum.
Þetta eru skelfilega háar fjárhæðir, þetta er tap sem nemur 1,5 milljónum kr. á hvert mannsbarn á Íslandi.
Þegar taflan er uppreiknuð sést að einungis sjóðfélagalán hafa hækkað milli ára, aðrar eignir hafa minnkað um 1,5%-20,5%. Þannig hefur heildareign sjóðanna lækkað um 17,5%.
Þetta er ekkert smá tap sem sameiginlegur sjóður landsmanna hefur orðið fyrir á einu ári. Mér er spurn hvort stjórnendur þessara sjóða séu starfi sínu vaxnir. Þeir ættu í það minnsta að vera það, þegar litið er á hvað þeir hafa fengið greitt í laun, hvort heldur við erum að tala um laun til forstjóra á bilinu 20-30 milljónir á ári, eða til stjórnarmanna sem nema verkamannalaunum fyrir að sitja í stjórn sjóðanna.
Ég veit það alla vega að ef hlutafélag sýndi afkomu af því tagi sem lífeyrissjóðirnir eru að sýna væri búið að reka stjórnendurna.
10.2.2009 | 18:40
Eignin hækkaði um 11 milljarða 2008
Satt best að segja varð ég alveg ruglaður við að lesa þessa frétt. Hún sagi mér ekkert um hver staða sjóðanna væri, en þegar ég skoðaði aðrar upplýsingar sá ég að í árslok 2007 var heildareign lífeyrissjóðanna 1.647 milljarðar kr. og í árslok 2008 var hún orðin 1.658 milljarðar kr. Því má segja að lífeyrissjóðirnir vaxið um 11 milljarða milli ára.
Þetta þýðir að þeir hafa tapað öllum innborguðum iðgjöldum ársins 2008 og rúmlega það. Ef þessi eign hefði legið inni á venjulegri bankabók hefðu vextirnir af henni orðið talsvert hærri en þetta. Þá er ég að tala um óverðtryggða reikninga. Lífeyrissjóðirnir eru helstu talsmenn þess að afnema ekki verðtryggingu á lánum, samt geta stjórnendur þeirra leyft sér að fara þannig með þá peninga sem þeim var trúðað fyrir að þeir tapa þeim með þessum hætti. Þeir taka sér svo ofurlaun fyrir þennan gjörning.
Hafa rýrnað um 181 milljarð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |