Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Tillaga um 1,5% afturvirka skattahækkun liggur til afgreiðslu hjá Alþingi

Efnahags- og viðskiptanefnd er búin að skila áliti vegna frumvarps um hækkun vaxtabóta.  Tillögur þeirra fela í sér að hækka hámarks vaxtabætur meira en frumvarpið felur í sér, en sá böggull fylgir skammrifi að vaxtabætur munu lækka hjá flestum þeim sem fá vaxtabætur af því skerðing þeirra verður aukin um 1,5%.  Útreikninga má sjá í síðustu færslu mína hér á blogginu. 

Það verður að teljast í hæsta máta ósiðlegt, og jafnvel ólöglegt að leggja á íþyngjandi skattabirgði.  Það verður að koma í veg fyrir að hróflað verði við hlutfalli tekjuskerðingar á vaxtabótum.  Ef það verður gert mun fjöldi manns sem samkvæmt bráðabirgðaútreikningi á sköttum fengi all verulegar fjárhæðir í vaxtabætur ekki fá neinar.   Ef þú ert ekki með fullar vaxtabætur getur þú einfaldlega reiknað með að vaxtabæturnar lækki um 1,5% af af tekjum síðasta árs.  Þannig munu vaxtabætur lækka um 15.000 kr. fyrir hverja milljón í árslaun.   Maður með meðallaun 350.000 kr á mánuði fengi því skerðingu á vaxtabótum upp á 63.000 kr.  Þetta er ekki hálaunamaður sem ætti að skerða vaxtabætur hjá.  Greinargerð nefndarinnar rökstyður þessa auknu skerðingu með því að það séu eingöngu hálaunamenn sem verði fyrir skerðingu.

Vonandi kemst þessi breytingartillaga nefndarinnar um hækkun skerðingar vegna tekna ekki í gegnum þingið.


Hækkun vaxtabóta þýðir lækkun fyrir marga

Ég hef stundum velt því fyrir mér, hvernig á því standi að þegar stjórnmálaflokkar leggja sig fram við að uppfylla óskir fólksins, þá verður útkoman oft þannig að betur hefði verið heima setið en af stað farið. Þannig líst mér á frumvarp um hækkun vaxtabóta sem er til afgreiðslu á Alþingi þessa dagana.  Í þessari frétt á Vísi.is http://visir.is/article/20090326/VIDSKIPTI06/57720852/-1 er skýrt frá í hverju þessar breytingar eru fólgnar.  Ég reiknaði hvað það þýddi fyrir hjón með mismunandi tekjur og mismunandi vaxtagjöld að hækka tekjutengingu úr 6% í 7,5% og eru niðurstöðurnar í eftirfarandi töflum.

töflur

Efsta taflan sýnir vaxtabætur miðað við núverandi kerfi, miðtaflan miðað við fyrirliggjandi frumvarp og neðsta taflan sýnir breytingu sem verður á vaxtabótum.   Mánaðatekjur eru samanlögð laun hjóna og árslaun er sú tala sem myndar stofn til vaxtabóta.

Niðurstaða þessara útreikninga er að vaxtabætur margra sem fengju fullar vaxtabætur miðað við núverandi kerfi lækka verulega, allir sem ná ekki fullum vaxtabótum í núverandi kerfi fá lægri bætur eða jafnvel engar.  Hins vegar munu vaxtabætur hækka hjá þeim sem borga mjög mikla vexti.  Ég er ekki viss um að það hafi verið tilgangurinn með breytingunni. 

Að lækka vaxtabætur hjá láglaunafólki er alls ekki á óskalista hjá nokkrum manni - því á ég bágt að trúa.  En samkvæmt þessari tillögu sem kemur frá nefndinni myndu vaxtabætur hjá hjónum sem eru með 250.000 kr í laun á mánuði hvort um sig, og greiddu 450.000 í vexti á síðasta ári lækka um 90.000 kr.

Sú breytingartillaga sem kemur frá efnahags- og skattanefnd minnir mjög mikið á það þegar marbendillin veitti bóndanum þrjár óskir, hann uppfyllti þær á þann hátt að hann hefði verið betur kominn án þeirra.


Fólk er orðið að aumingjum sem nennir ekki að vinna

Þessi umræða átti sér stað á kaffistofu fyrir nokkrum árum á vinnustað þar sem ég var.  Einn samstarfsmaður minn hafði tekið eftir því að sífellt fleira fólk hafði farið af almennum vinnumarkaði og á örorkubætur.  Hann hafði komist að þeirri niðurstöðu að þetta fólk væri upp til hópa letingjar sem hefði kosið það sjálft að hætta að vinna og vera heima á bótum.

Honum var bent á að málið væri ekki svona einfalt.  Það þyrfti ekki að skoða nema nokkur ár aftur í tímann, þá hefði stór hluti þessara einstaklinga verið á vinnumarkaði þó svo afköstin væru ekki eins mikil og hjá fullfrísku fólki.  Þetta var á þeim tíma sem fyrirtækin voru enn í eigu heimamanna og eigendur þeirra þurftu að mæta þessu fólki á götu.  Krafan um hagnað var ekki allsráðandi, það hafði ekki síður áhrif á eigendurna að þeir gátu veitt samborgurum sínum vinnu og lífsafkomu. Þeir þurftu að búa í sama samfélagi og aðrir.  Áður en frjálshyggju kapítalisminn varð allsráðandi voru atvinnutækin enn í eigu heimamanna.  Á þessum tíma sýndu fyrirtækin samfélagslega ábyrgð, enda þurftu þau að lifa í sama samfélagi og aðrir borarar.

Þegar eignarhald fyrirtækjanna fjarlægðist samfélagið þar sem þau störfuðu, gerðu eigendurnir meiri kröfur um arð.  Með kröfunni um meiri framlegð og meiri arð, varð að losa sig við þá hluta starfseminnar sem skilaði ekki arði og var jafnvel baggi á fyrirtækinu.  Þeir starfsmenn sem skiluðu ekki fullum afköstum gátu því tekið pokann sinn.  Þeir gátu ekki fengið vinnu annars staðar svo þeir urðu að leita á náðir hins opinbera og lífeyrissjóðanna.  Eigendunum stóð alveg á sama, þar sem þeir þurftu ekki að eiga á hættu að mæta þeim á götu.  Þegar á bótakerfið var komið, var ekki svo auðvelt að snúa aftur á vinnumarkaðinn, því allar launatekjur leiddu og leiða sennilega enn til skerðingar á bótum.  Þannig að ef þú getur ekki skilað fullum afköstum skaltu bara halda þig heima.

Fyrir nokkrum áratugum skiluðu fyrirtæki ekki miklum arði til eigenda sinna, en skiluðu miklu til samfélagsins, m.a. með því að veita fólki vinnu sem annars hefði verið á framfæri hins opinbera og stuðla að uppbyggingar í sínu samfélagi, með þeim margföldunaráhrifum sem því fylgdi.  Skattlagning þeirra var með þeim hætti að það borgaði sig ekki að skila hagnaði, frekar var ráðist í fjárfestingar sem skiluðu þeim litlum sem engum arði en skapaði vinnu í samfélaginu við uppbygginguna.  Í dag er skattlagning á hagnað hófleg, og hávær krafa um að lækka hana.  Skattlagning á arð er mjög lág 10% og er greidd út til eigendanna, sem oftar en ekki búa annars staðar en í því sveitarfélagi sem fyrirtækin starfa.  

 Sveitarfélögin fá ekki hlutdeild í skattlagningu á hagnað fyrirtækjanna, ekki hlutdeild í fjármagnstekjuskattinum af arðinum en sitja uppi með fólkið sem ekki skilar fullum afköstum á félagslegum bótum og fjárfesting í sveitarfélögunum hefur minnkað verulega.  Þetta frjálsa flæði fjármagns og aukin krafa um arð, ásamt því að eignarhald atvinnutækja hefur færst úr höndum heimamanna, hefur leitt til þess að hagur sveitarfélaga hefur minnkað þar sem fjármagnið sem þau skila hefur farið annað, jafnvel úr landi.

Þessu þarf að breyta, það verður að byggja starfumhverfi fyrirtækja þannig upp að það borgi sig fyrir eigendur þeirra skilja fjármagnið eftir þar sem það er upprunnið í stað þess að flytja það burt.

Það þarf jafnvel líka að veita sveitarfélögunum hlut í fjármagnstekjuskattinum, en þegar hann var tekinn upp færðu mjög margir rekstraraðilar starfsemi sína úr einkarekstri í hlutafélög.  Við þá aðgerð hættu sveitarfélögin að fá útsvar af hagnaðinum, en ríkið hlutur ríkisins lækkaði úr 24% í 18%, auk þess sem það fékk 10% af útgreiddum arði.   Skattlagningu hlutafélaga þarf því líka að breyta þannig að sveitarfélögin fái bæði hlutdeild í skattlagningu hagnaðar og útgreidds arðs.

Til að byggja upp þarf að skilja sem mest af hagnaði sem myndast af starfsemi fyrirtækja eftir heima í héraði.


Það er nefnilega það

Homo economicus, er nefndur maður sem tekur alltaf bestu ákvörðun hverju sinni.  Þetta er maðurinn sem margar stefnur hagfræðinnar kalla til þegar þeir eru að skýra hversu stefna þeirra er mikið betri en aðrar. 

Ef hann væri til, gæti hugsanlega verið rétt að stefnan hafi ekki brugðist heldur fólkið.  Það er bara eitt vandamál HANN ER EKKI TIL og þó hann væri til hefur hann ekki aðgang að öllum þeim upplýsingum sem þarf til að geta tekið bestu ákvörðunina hverju sinni.  Það eru þættir eins og bankaleynd sem hjálpa til við að fela fyrir honum upplýsingar.  Annar þáttur eru óvæntar ákvarðanir sem aðrir taka, sem byggja ekki á neinum skynsamlegum rökum. 

Þriðji þátturinn er það eðli sumra að vilja hagnast sem mest á sem stystum tíma án tillits til þess hver áhrifin verða.  Þetta var kallað að blóðmjólka kúna í kennslubók um stjórnun.  Þessi stjórnunarstíll er einmitt sá sem verið hefur allsráðandi á fjármálamarkaði á undanförnum árum.  Frjálshyggjumennirnir kölluðu það að virkja latt fjármagn.

Annað atriði sem vekur sérstaklega athygli mína í skýrslu þessari er hvað mikil áhersla er lögð á að eftirlitsaðilar hefðu brugðist.  Ég hélt að stefna frjálshyggjunnar, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hneigst til á síðasta áratug, teldi að opinberar eftirlitsstofnanir með markaðinum væru óþarfar vegna þess að markaðurinn væri með innbyggt eftirlit.  Sennilega hefur það verið Homo Economus sjálfur sem sá um þetta innbyggða eftirlit, því hann vinnur ekki hjá því opinbera.

Vandamálið í hnotskurn er einfaldlega að þeir sem stjórnuðu fóru í felur með það sem þeir gerðu, skýldu sér á bak við bankaleynd, lagaflækjur og bjuggu til svo flókin krosstengsl að það vissi enginn lengur hver ætti hvað.

Það voru aðilar í feluleik, sem læddust um eins og þjófar að nóttu og gerðu allt sem þeir gátu til að komast yfir allt það fjármagn sem mögulegt var sem brugðust.  Þeir skýla sér á bak við bankaleynd svo ekki er hægt að sjá hversu siðlausar aðgerðir þeirra voru og oft á mörkum þess að vera löglegar.   Það eru þessir einstaklingar sem sem brugðust, ekki fólkið. 


mbl.is Fólkið brást, ekki stefnan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju afskirfa lánin - gæfi vaxtalækkun ekki betri árangur og sanngjarnari

Nú eru frambjóðendur farnir að bjóða hverjum öðrum betur í afskriftir á lánum vegna íbúðarkaupa.  Þetta á ekki að kosta nema 200 - 800 milljarða kr.  eða hálf til ein og hálf fjárlög ríkisins.

Ef einhverrar sanngirni ætti að gæta, þyrfti að skoða hvað tók hver og einn mikið hlutfall af íbúðarverðinu að láni þegar hann keypti, hvað er hann búinn að borga mikið niður og hvað ætti hann samkvæmt því að skulda mikið.  Með þvi að færa lánin niður í það hlutfall af matsverði fasteignarinnar væri sennilega sanngjarnasta leiðin.  Þannig gæti aðili sem keypti íbúð á 15 millj.kr. fyrir 4 árum, átt í dag íbúð sem metin er á 25 millj.kr.  Segjum að hann hafi tekið lán upp á 10 millj.kr. til 40 ára með jöfnum afborgunum.  Þá er hann búinn að borga 1/10 af nafnverði lánsins, eða 1 millj.kr.  Skuldin ætti þá núna að standa í 9/15 af matsverði íbúðarinnar, eða 15 millj.kr.  Ef lánið er orðið hærra er réttlátt að afskrifa það niður í 15 millj.kr. ef það er lægra þá er spurning hvort það væri ekki á sama hátt réttlátt að hækka það upp í 15 millj.kr.   NEI SVONA GERUM VIÐ EKKI.  Afskriftir lána eru dýrar. 

Hægt væri að lækka greiðslubirgði allra lána á mikið ódýrari, sanngjarnari og sársaukalausari hátt.  Lækka vextina sem um var samið í upphafi.  Þannig hefði 2% lækkun á vöxtum, þau áhrif að mánaðarlegar greiðslur af 20 millj.kr. láni myndu lækka um 20-25 þús kr. eftir því hversu mikið er eftir af lánstímanum ef um jafngreiðslulán er að ræða en 33 þús ef um jafnar afborganir er að ræða.  Áhrifin eru svipuð og að lækka þessi lán um 20% eða 4 millj.kr.  mismunurinn liggur hins vegar í þvi að ef lánin eru færð niður með afskrift, lækka greiðslurnar meira eftir því sem styttra er eftir af lánstímanum, en því er öfugt farið ef vextirnir eru lækkaðir.

Helstu rök fyrir því að lækka vexti frekar en höfuðstól eru

1. að þeir sem eiga lengstu lánin eru oftar þeir sem þurfa á því að halda að lækka greiðslurnar

2. það getur ekki verið eðlilegt að vextir til langs tíma séu hærri en hagvöxtur

3. höfuðstóll og verðbætur lánanna eru ekki skert, einungis tekjur af láninu, og því þarf ekki að greiða neitt úr ríkissjóði

 


mbl.is Vill fella niður 4 milljónir af höfuðstól húsnæðislána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórtíðindi sem láta lítið yfir sér

Það verður að teljast til stórtíðinda að Sviss, Austurríki og Lúxemborg hafi aflétt bankaleynd.  Það hefur í mjög langan tíma verið talið með helstu kostum þess að geyma fé í bönkum í þessum löndum að það hefur ekki verið gefnar upplýsingar um eigendur innistæðna.

Nú er bara spurning hvort bankaleynd verði afnumin í þeim hlutum Breska samveldisins þar sem það ríkir enn, eins og á eyjunum í Karabíska hafinu þar sem útrásarvíkingarnir og aðrir þeir sem hafa efnast á undanförnum áratug eru sagðir geyma eignirnar.


mbl.is Bankaleynd aflétt í Sviss og Lúxemborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband