Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
14.11.2008 | 21:54
Væri til góðs eða ills að ganga í ESB?
Öll umræða um hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið hefur verið frasakennd. Staðreyndir málsins liggja ekki fyrir og hver áhrifin væru af inngöngu er mjög óljóst. Eina leiðin til að komast að því hvað kosti og galla slíkt hefði er að skoða málin og þarf jafnvel að ganga svo langt að sækja um aðild til að það komi í ljós.
Eins og staðan er í dag, gilda fjölmargar af tilskipunum Evrópusambandsins hér á landi þannig að innganga myndi að því leiti ekki hafa mikil áhrif. Sumir hafa jafnvel fengið glýju í augun vegna þess styrkjakerfis sem við myndum fá aðgang að við inngöngu. Á móti kemur að við höfum haft sjálfstæða samninga við ríki utan Evrópusambandsins um milliríkjaviðskipti. Við inngöngu í Evrópusambandið myndu þeir samningar falla niður og við yrðum að gangast undir samþykktir þess í utanríkisviðskiptum.
Innganga í sambandið þýðir ekki sjálfkrafa stöðugleika, því við verðum að vinna heimavinnuna okkar til að svo verði. Sumir hafa sagt að sveiflurnar geti jafnvel orðið meiri, þar sem við munum ekki getað hagað seglum eftir vindi, þar sem regluverk sambandsins veiti ekki slíkt svigrúm.
Ef við göngum þarna inn, verðum við að gera okkur grein fyrir því að við erum örsmá jaðarbyggð og áhrif okkar og skoðanir ekki veigameiri en þau áhrif sem smáþorp úti á landi hefur á stjórnun Íslands í dag. Aðgangur að jaðarbyggðastyrkjum finnst mér ekki vera næg ástæða til inngöngu, það gerir okkur bara að ölmusumönnum. Við sem höfum búið á Vestfjörðum þekkjum vel hvernig talað er um Vestfjarðaaðstoðina sem var fyrir 10 árum, og fólst í lánum sem nær öll voru endurgreidd innan tveggja ára frá því þau voru tekin. Marti töluðu um Vestfirðinga sem ölmusumenn í mörg mörg ár á eftir, löngu eftir að búið var að greiða lánin upp að fullu, þó svo þeir hafi ekki fengið neitt gefins.
Göngum hægt um gleðinnar dyr. Skoðum vandlega hvaða áhrif innganga í Evróðusambandið hefði áður en endanleg ákvörðun verður tekin.
Skref í átt að ESB væru jákvæð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2008 | 23:38
Erfitt að þjóna tveimur herrum
Gunnar Páll komst vegna stöðu sinnar sem formaður VR og stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna í þá vandræðalegu stöðu að sitja í stjórn Kaupþings.
Sú skipan á stjórn lífeyrissjóða að þeir skuli skipaðir af atvinnurekendum annars vegar og stéttarfélögum hins vegar gerir það að verkum að fulltrúar stéttarfélaganna eru þar með orðnir að fulltrúum fjármagnseigenda. Fjármagnseigendur eiga sér eitt markmið, það er að ávaxta féð sem mest á sem öruggastan hátt. Þeir hagsmunir vilja oft stangast á við hagsmuni annarra, þar á meðal launamanna.
Lífeyrissjóðir eru sá sparnaður sem launþegar eru að leggja til hliðar til að nota þegar þeir leggjast í helgan stein og hætta að vinna. Hagsmunir lífeyrisþega er að iðgjöld í lífeyrissjóð sé ávaxtað með sem bestum hætti. Lífeyrissjóðirnir fara eftir ákveðnum reglum með hvernig eigninni er skipt milli skuldabréfa, ríkisskuldabréfa og hlutabréfa. Hlutabréf gefa til lengri tíma mesta ávöxtun, en bera jafnframt mesta áhættu. Hlutabréfaeign lífeyrissjóða er það mikil að þeir eiga oft á tíðum ráðandi hlut í þeim hlutafélögum sem eru á markaði, slíkri eign fylgir jafnframt sú ábyrgð að sitja í stjórn viðkomandi félags.
Þetta gerir það að verkum að fulltrúar stéttarfélags sem situr fyrir hönd félagsins í stjórn lífeyrissjóðs þarf að einnig gæta annarra hagsmuna en eingöngu launþeganna. Framtíðarhagsmunir þeirra í formi lífeyrisgreiðslna eru þar í húfi. Þegar upp koma mál, þar sem hagsmunir fjármagnseigandans (lífeyrissjóðsins) um að fjárfestingin beri ávöxt, stangast á við hagsmuni launþegans verða þeir að meta hvorir hagsmunirnir vegi þyngra.
Gunnar Páll lenti í þessari erfiðu stöðu þegar hann sat í stjórn Kaupþings. Það voru miklar fjárhæðir sem lífeyrissjóðurinn hafði fjárfest í félaginu og sú samþykkt sem stjórnin gerði á þessum tíma virtist til þess fallin að verja verðmæti fjárfestingarinnar, þó svo atburðir nokkrum vikum síðar hafi leitt til þess að þær urðu verðlausar.
Mér finnst Gunnar Páll vera meiri maður fyrir að viðurkenna opinberlega að hann hafi komið að þeirri umdeildu ákvörðun sem þarna var tekin og skýra hvaða forsendur lágu að baki ákvörðuninni. Þetta sýnir að hann er sterkur maður í forystu VR.
VR flýtir stjórnarkjöri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2008 | 09:50
Flugeldar og málning
Skrifaði í gær um að það væri að sjóða upp úr.
Fólk verður að halda ró sinni,
þolinmæðin er að þrjóta.
Búið að bíða í 6 vikur eftir aðgerðum sem láta á sér standa.
Ríkisstjórnin verður að gefa smjörklípu til að róa almenning - helst meira.
Það eru komnar 6 vikur síðan bankarnir féllu. Á þeim tíma var lagt til að ríkisstjórnin færi frá og skipuð yrði ríkisstjórn með aðkomu allra flokka á þingi. Slík stjórn hefði örugglega getað náð að gera meira, þar sem það hefði verið auðveldara að ná meirihlutafylgi við aðgerðir - sem ekki er farið að bóla á ennþá. Það er ekki of seint að skipa nýja stjórn allra flokka - án þess að kosið verði strax. Þingmenn og ríkisstjórn hafa misst umboð þjóðarinnar og því verður að kjósa innan árs.
Máluðu Valhöll rauða í nótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.11.2008 | 12:33
Ábyrgð - eitthvað sem þú færð greitt er fyrir - aðrir mega axla hana
Hún er skrýtin tík, þessi pólitík. Tryggðin við "Flokkinn" er meiri en tryggðin við þjóðina. Það er verri glæpur að tala illa um flokksystkini sín en selja þjóðina í ánauð. Þetta var það sem mér datt fyrst í hug, þegar ég heyrði af því að Bjarni Harðarson hefði sagt af sér þingmennsku.
Vonandi er hann að leggja línurnar með að gerðum fylgi ábyrgð. Hann er að flytja okkur þau skilaboð að ábyrgð sé ekki bara eitthvað sem greitt er fyrir þegar vel gengur, heldur að menn skulu standa og falla með ákvörðunum sínum og gjörðum eða aðgerðaleysi. Hann er meiri maður fyrir að hafa axlað sína ábyrgð.
Fleiri mættu fara að fordæmi Bjarna. Sumir menn virðast hafa komist upp með að skuldsetja þjóðina svo mikið að úr því virðist ekki verða leyst. Aðrir hafa gasprað ógætileg orð í fréttaþáttum, sem spiluð hafa verið um allan heim, og hafa leitt til þess að Bretar virkjuðu lög um hryðjuverk gagnvart íslendingum og hafa gert menn að óábyrgum aðilum. Ef þetta hefði verið einhver Jón eða Gunna hefðu þessi orð ekki skipt máli, en seðlabankastjóri verður að gæta orða sinna og ætti að hafa vit á því eftir að hafa verið forsætisráðherra í meira en 10 ár. Svo reynsluleysi var ekki um að kenna. Bankastjórarnir fengu greitt ríflega fyrir sína ábyrgð, en það virðist ekki einu sinni vera komin í gang rannsókn á hvort þeir hafi stýrt fyrirtækjum sem hafi farið út fyrir lögin.
Úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar virðist vera algjört, en aðgerðarpakki hennar er ennþá leyndarmál, vegna þess að það er kannski búið að sækja um lán hjá IMF. Stendur þjóðin því í óvissu með hvort og hverju má eiga von á á komandi árum. Er einhver sem hefur tekið að sér að axla ábyrgð á þeim seinagangi sem virðist vera á afgreiðslu lánsins? Eða er getuleysið slíkt að menn geta ekki einu sinni axlað ábyrgð á sjálfum sér og sýnt sóma sinn í að hleypa öðrum að stjórnborðinu.
Ríkisstjórnin er að falla á tíma, þolinmæði þjóðarinnar er að þrotum komin og sú reiði sem menn fengu nasasjón af síðasta laugardag verður meiri með hverjum deginum sem líður án þess að nokkuð bóli á aðgerðum. Þær skýringar að menn viti ekki hvað það er sem er að tefja málið eru illskiljanlegar og bera þess merki að það virðist ekki vera reynt að fylgja málinu eftir.
Leyndin er slík að ekki einu sinni þingið fær að vita hvað er í gangi. 30. mars 1949 brutust út óeirðir á Austurvelli eftir slíkt leynimakk, þegar á Alþingi var ákvað að Ísland gengi í NATO. Nú eru rúm 76 ár frá "Gúttóslagnum" sem var 9. nóvember 1932, en þá ákvað bæjarstjórnin í Reykjavík að lækka laun verkamanna í atvinnubótavinnunni í miðri kreppunni. Í dag er farið að krauma verulega í fólki, með sama áframhaldi þarf líklega ekki nema lítinn neista til að upp úr sjóði. Þá er ekki ólíklegt að þriðji bardagi lögreglu og almennings verði þarna við Alþingishúsið.
Almenningur vill fá svör og aðgerðir, óvissan er versti óvinurinn, hún veldur ótta og reiði. Það er kominn tími til að gefa upp meira um áætlanir bæði aðgerðir og tímasetningar.
Engar útskýringar á frestun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.11.2008 | 02:18
Eru lífeyrissjóðirnir baggi á verkalýðshreyfingunni?
Gunnar Páll formaður VR var að verja eignir lífeyrissjóðanna þegar hann samþykkti að fella niður ábyrgð stjórnenda Kaupþing á skuldum!
Gylfi formaður ASÍ getur ekki samþykkt að fella niður verðtryggingu vegna þess að þá tapa lífeyrissjóðirnir!
Það má ekki lækka vexti eða laga greiðslubirgði heimilanna vegna þess að þetta bitnar allt á lífeyrissjóðunum. Lífeyrissjóðirnir eru orðnir svo stórir að það er ógerningur fyrir venjulegan mann að átta sig á stærð þeirra.
En ef einungis tekjur þeirra af innborguðum iðgjöldum í sjóðina er skoðað, eru þær meiri en samanlagðar tekjur allra sveitarfélaga í landinu vegna útsvars. Hámark útsvar er 13,05%, iðgjald í almennan lífeyrissjóð er 12% af launum, þar til viðbótar koma 4-6% vegna séreignarsparnaðar.
Í árslok 2007 var heildareign Lífeyrissjóðs verslunarmanna tæpar 270 milljarðar kr. og voru innborguð iðgjöld 15,6 milljarðar og útborganir til lífeyrisþega 4,2 milljarðar. Heildareign lífeyrissjóðanna í heild nam samtals 1.647 milljörðum kr., þetta er fjárhæð sem nemur 5,2 millj. kr. á hver mannsbarn á Íslandi. Þessi eign skiptist á 31 lífeyrissjóð.
Lífeyrissjóðirnir hafa tapað mikið á skuldabréfum til bankanna og hlutabréfaeign í þeim sem samtals var 30% af heildareign um síðustu áramót. Óvíst er hvernig staðan er á erlendum verðbréfum sem námu um 30% af heildareign þeirra vegna gengislækkunar og lækkunar á hlutabréfamörkuðum, auk þess sem margir bankar hafa orðið gjaldþrota. 30% af eigninni eru vegna veðskuldabréfa til einstaklinga, sjóðsfélaga og annarra íbúðabréfa.
Veðlánin hækka og hækka, fólk á stöðugt erfiðara með að standa í skilum með afborganir og vexti. Ef áframhald verður á þessu verða vanskil þeirra við lífeyrissjóðina gífurleg, sem gæti leitt til þess að lánin fást ekki greidd og getur ekki leitt til neins annars en enn frekara taps sjóðanna.
Í stjórnum þessara lífeyrissjóða sitja forystumenn verkalýðshreyfingarinnar. Almenningur eru þeir aðilar sem forystumenn verkalýðshreyfingarinnar eiga að gæta hagsmuna fyrir. Eins og umræðan er í dag virðist sem þeir meti hagsmuni lífeyrissjóðanna meira en hagsmuni hins almenna launamanns. Almenningur verður að borga fyrir tap sjóðanna. Það eru ekki nema fimm ár síðan lífeyrissjóðirnir voru síðast með neikvæða ávöxtun, eða á árunum 2000-2003. Þá var það vegna hruns á hlutabréfamarkaði hér á landi. Það tap var örugglega ekki hinum almenna launþega að kenna. Það er jafnvel spurning hvort hagsmunir launþega í dag fari saman með framtíðarhagsmunum þeirra sem lífeyrisþega í framtíðinni.
Við skoðun á ársreikningi Lífeyrissjóðs verslunarmanna kemur ýmislegt athyglisver í ljós. Forstjórinn er með tæpar 30 millj.kr. í laun. Stjórnarlaun eru rúmar 10 millj. kr. sem skiptast á 9 stjórnarmenn. Samtals 40 millj.kr. Nokkuð drjúg laun fyrir að skila 1% ávöxtun á sama tíma og veðskuldabréfin báru 5-6% vexti.
Mér er bara spurn hverra hagsmuna eru þeir að gæta og eru þeir að skila svo góðum árangri að það réttlæti þessi ofurlaun?
Í fréttum í dag er búið að fjalla um afskrift skuldabréfa til stjórnenda Kaupþings sem þeir tóku til að fjármagna hlutabréfakaup í bankanum.
Stjórnendur Kaupþings gerðu starfskjarasamninga sína, sem virðast hafa falist í því að fá hlunnindi í því formi að þeir gátu keypt hlutabréf í félaginu gegn skuldabréfi, sem greiða átti til baka með arðgreiðslum af hlutafénu. Ef skuldabréfin hafa hljóðað upp á slíka endurgreiðslu, er ljóst að þegar félagið hætti að greiða arð, væri skuldin töpuð - eða hvað?
- Það sem er athugavert við þetta er að það eru að eiga sér stað leyndar launagreiðslur þar sem stjórnendurnir eru að greiða einungis 10% í skatt, í stað 35%
- Stjórnendum eru veitt lán á mun betri kjörum við endurgreiðslu en nokkrum öðrum eru boðin.
- Lánin eru veitt með lélegra veði en öðrum eru boðin.
Þarna er greinilega verið að greiða mönnum laun, þar sem hlunnfara átti ríkissjóð um hluta af skatttekjunum, sveitarfélög fengju ekkert útsvar, ekkert væri greitt til stéttarfélaga. Eiga þessir menn þá ekki skilið að sitja uppi með skuldina þegar þeir eru greinilega að hlunnfara samfélagið.
Á móti má segja að þetta hafi verið hluti af launakjörum þessarra manna, þannig að það má spyrja sig að því hvort þeir eigi að borga með sér, fyrir að hafa unnið hjá þessum vinnuveitanda, sem plataði þá til að taka skuldabréf til að auka hlutafé.
Ef einhverjum hefði átt að vera ljóst að um áhættufjárfestingu væri að ræða hefðu það verið þessir menn.