Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
26.11.2008 | 11:51
Geta vextir til langs tíma verið hærri en hagvöxtur?
Að þessari spurningu spurði ég einn af þingmönnum okkar, þegar hann var nýútskrifaður úr hagfræði?
Hann bað um tíma til að hugsa málið. Þegar ég hitti hann næst, sagði hann að það gengi ekki upp til lengdar. Mér datt þessi spurning í hug aftur nú þegar vaxtagjöld eru að sliga þjóðfélagið. Allar lausnir sem stjórnarflokkarnir koma fram með, eiga að stuðla að því að viðhalda háu vaxtastigi. Ég er ekki að tala um 18% stýrivexti, ég er að tala um 8-10% vexti sem lagðir eru ofan á verðbætur og 25-30% vexti á óverðtryggð lán. Verðtryggingin er séríslenskt fyrirbrigði sem hagfræðingar IMF hafa ekki nema litla hugmynd um hvaða áhrif hefur og fyrirfinnst ekki í reiknilíkönum þeirra. Þess vegna eru þeirra útreikningar ónothæfir.
Það er fyrirsjáanlegt að hagvöxtur verður neikvæður á næstu árum og svona hátt vaxtastig hlýtur óhjákvæmilega að leiða til þess að gera rekstur fyrirtækja og heimila mikið erfiðari en hann þyrfti að verða og óþarflega mikilla gjaldþrota.
Þegar ávöxtunarkrafa fjármagns er orðin svona há, dregur það verulega úr allri uppbyggingu og virðisauka sem á sér stað í þjóðfélaginu. Það eru þeir þættir sem þarf til að minnka atvinnuleysi. Auknum virðisauka og aukinni veltu fylgja hærri tekjur fyrir ríkissjóð.
Að lækka vexti myndi draga verulega úr þeirri kreppu sem er að skella á okkur núna. Fjárfestar myndu tapa minna á því að fá lægri vaxtatekjur, en myndu tapast ef á skellur hrina gjaldþrota. Lífeyrissjóðirnir eru stærsti einstaki fjármagnseigandinn. Fólkið í landinu vill örugglega frekar að sjóðirnir séu tryggir og fái minni tekjur til skamms tíma, en að hafa háa ávöxtun í ótryggum sjóðum.
Hið fullkomna fárviðri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.11.2008 | 12:52
Er verið að lýsa gengistryggðum lánum og innheimtugjöldum?
Þetta er það sama og íslendingar sem tekið hafa gengistryggð lán hafa þurft að þola. Það er lánin hafa tvöfaldast á örskömmum tíma í íslenskum krónum og vexirnir því orðnir óbærilegir.
Munurinn liggur þó í því að lánveitendurnir geta notað dómstólaleið til að innheimta lánin. Innheimtukostnaður sem lántaki er látinn borga er sömuleiðis óbærilegur - má segja að hann beri keim af okurlánastarfsemi.
Okurlánurum sagt stríð á hendur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2008 | 13:07
Bjargar það einhverju að skipta um mælieiningu?
Ég hef ekki skilið þessa umræðu um að skipta um gjaldmiðil. Og enn síður að það eigi að leysa öll fjármálaleg vandamál íslendinga. Þetta er flóknara en svo. Það eru svo margir óljósir þættir sem þarna eru.
Verðtrygging lána er bundin við neysluvísitölu, það skiptir engu máli hver gjaldmiðillinn er. Til að afnema verðtrygginguna þarf að gera talsvert meira en bara að skipta um gjaldmiðil. Það þarf að breyta öllum lánasamningum sem eru verðtryggðir. Það er hægt að vera með verðtryggð lán, þó svo þau hljóði upp á Evrur. Verðtryggingin er bara ákvæði í lánasamningi um að vextir skuli annars vegar vera föst % af höfuðstól að viðbættum verðbótum og hins vegar verðbætur sem leggjast við höfuðstól.
Eini ávinningurinn sem ég sé við að skipta um gjaldmiðil er að það verður ekki lengur þörf fyrir seðlabanka, þess vegna munu stýrivextir verða svipaðir og annars staðar.
Til að þetta sé hægt þarf meiriháttar uppstokkun á fjármálakerfinu. Kannski er nú tækifæri, þegar fjármálakerfið er nær hrunið og þarf að byggja það upp aftur. Það þarf að endurmeta hvort verðtrygging skuli áfram vera á lánum. Þegar þeirri vinnu er lokið er hægt að spá í hvort við eigum að vera með eigin gjaldmiðil eða taka upp annann.
Boðið að kasta krónunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.11.2008 | 19:37
Ný smjörklípa -
Það er athyglisvert að forystumenn stjórnarflokkanna skuli koma síðla dags á hverjum föstudegi til að gefa þjóðinni smá smjörklípu. Boðað er til blaðamannafundar og tilkynnt að nú séu þeir búnir að koma sér saman um eitthvað smávegis sem gæti róað lýðinn.
Ekki er enn farið að bera á að þeir séu búnir að koma sér saman um aðgerðapakka.
Óska eftir launalækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2008 | 20:46
Hjarðhegðun fjár
Það hefur gjarnan einkennt fé að fylgja forystusauðunum. Forystusauðirnir virðast hafa hæfileika til að finna alltaf beitarlandið. Þetta vita hinir sauðirnir, því hefur skapast sú hefð meðal fjárins að fylgja forystusauðnum, hvort sem hann heldur sig á öruggum slóðum, eða anar út á klettasyllur sem ekki geta borið alla hjörðina. Ef syllan brestur undan þunga fjárins hrynur hjörðin niður og verða þá margir sauðir fyrir limlestingum.
Segja má að fjárhirðar hafi sömu skyldu að gegna gagnvart hjörðinni - þeirra hlutverk er að finna besta beitarlandið, en þeirra hlutverk er líka að koma í veg fyrir að hjörðin hætti sér út á klettasyllur sem ekki geta borið hana.
Mér datt í hug þessi samlíking að fjármagn og sauðfé virðist hafa svipaða hegðun. Fyrr á þessu ári reyndu menn að ná mikilli ávöxtun með kaupum og sölu á olíu, en svo datt botninn úr þeim viðskiptum. Sömu sögu má segja um skuldabréfamarkaðinn og bankana. Spurningin er hvar var fjárhirðirinn? Var hann ekki starfi sínu vaxinn?
Það er hverjum manni ljóst að fjáreigendur hefðu verið fljótir að reka þann fjárhirði sem hefði ekki getað komið í veg fyrir að féð hefði farið sér að voða. Það vantar nýjan fjárhirði.
Endurbætur á fjármálamörkuðum nauðsynlegar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.11.2008 | 23:44
10% meðaltal
Þjálfarinn hafði fengið niðurstöðurnar úr þrekprófinu og fitumælingunni. Það var ljóst að þrekið hjá liðinu var alveg í molum, langt fyrir neðan það sem ásættanlegt var. Sama var að segja um fitumælinguna, liðið þurfti í heild sinni að léttast um 10%.
Í liðinu voru margir mismunandi einstaklingar, einn sem var að koma úr fitness-keppni "skorinn" og fínn, enga fitu að finna enda þurfti að sýna alla vöðva. Þarna var líka langhlaupari sem var í toppformi. Einnig voru í liðinu aðrir einstaklingar sem drógu niðurstöðurnar langt niður fyrir ásættanlega niðurstöðu, nokkrir allt of feitir einstaklingar og aðrir með lystarstol.
Þjálfarinn var í öngum sínum, niðurstöðurnar sýndu að það þyrfti átak til að létta liðið um 10% og auka þrekið um það sama. Það var aðeins mánuður til stefnu til að ná þessu markmiði. Þá fékk hann snilldarhugmynd, allir skyldu bæta 20% við æfingatíma sinn og létta sig um a.m.k. 10%.
Fitness gæinn og langhlauparinn kvörtuðu við þjálfarann, þar sem þeir voru báðir í toppformi og ekki eitt aukagramm á þeim. Feitu einstaklingarnir tóku þessu vel og fannst þetta ekki mikið mál þar sem 20% viðbót við engan æfingatíma var ekkert, og þeir vissu að þeir hefðu gott af því að fara í smá megrun. Lystarstol sjúklingurinn hafði ekki orku til að kvarta.
Þjálfarinn sagðist ekki hlusta á svona raus, það yrðu allir að taka jafnt á sig. Hann væri búinn að komast að því, með hjálp færustu hagfræðinga, að það yðri að laga meðaltalið, því meðaltalið væri það sem mestu máli skipti. Og þar við sat.
Að einum mánuði liðnum ákvað þjálfarinn að skoða stöðuna aftur. Hann varð heldur betur hissa á niðurstöðunni. Hann hafði ná markmiðinu um að létta liðið. En þrekið hafði versnað til muna. Þegar hann fór að skoða hverju þetta sætti kom eftirfarandi í ljós. Langhlauparinn hafði látið taka af sér annan fótinn til að ná því markmiði að léttast, en hann gat ekki hlaupið lengur. Fitness gaurinn hafði látið taka af sér handlegginn, en gat ekki æft lengur. Þeir feitu höfðu allir lést um sín 10% hver, en lystarstols sjúklingurinn hafði dáið úr næringarskorti vegna þess að hann hafði verið að reyna að létta sig meira.
Árangurínn af 10% flötum niðurskurði var minni en enginn þegar upp var staðið.
18.11.2008 | 22:44
Vaxtalækkun i stað gjaldþrotaleiðar
"Fólkið er mikilvægasta eign hvers samfélags og þegar erfiðleikar steðja að þurfa stjórnvöld að sjá til þess með öllum ráðum að íbúarnir flýi ekki úr landi því þeir komi aldrei allir til baka segir Hermann Oskarsson hagstofustjóri Færeyja."
Það virðist vera að ráðamenn þjóðarinnar geri sér ekki grein fyrir að hinn raunverulegi auður liggur í fólkinu sem hér býr og þeirri menntun og reynslu sem það hefur aflað sér. Þegar harðnar á dalnum er það fólkið sem á að taka skellinn.
Fjármagnseigendur skulu ekki tapa krónu, allar aðgerðir miða að því að þeir haldi sínu með vöxtum og vaxtavöxtum. Til að koma í veg fyrir að þeir verði fyrir tapi er veittur aukinn greiðslufrestur. Það versta sem þeir geta lent í er að þurfa að afskrifa þau útlán sem þau hafa veitt. Þannig eru það einkum hagsmunir þeirra að heimilin í landinu verði ekki gjaldþrota. Þetta er ekkert annað en gjaldþrotaleið, þ.e. ekki skal veita hjálp fyrr en gjaldþrot blasir við.
Heildarútlán bankanna til viðskiptavina eru 1.826 milljarðar kr. Í lok ágúst voru íbúðarlán um 580 milljarðar kr., í þeirri fjárhæð eru einnig útlán Íbúðarlánasjóðs og sparisjóðanna. En ef þetta eru eingöngu lán bankanna myndi 1% lækkun vaxta þýða að þeir myndu tapa 5,8 milljörðum á ári, eða 0,3% af heildarútlánum til viðskiptavina. Í samanburði við eigið fé þeirra eru þetta 2,9% af eigin fé. Ef við gefum okkur að heildarútlán til viðskiptamanna beri 20% vexti, er þetta lækkun um 1,6% af heildartekjum. Þessi fjárhæð er smáræði í samanburði við það tap sem þeir gætu orðið fyrir með gjaldþrotaleiðinni.
Heildareignir lífeyrissjóðanna eru 1.647 milljarðar kr. Lífeyrissjóðirnir eru með ávöxtunarkröfu upp á 3,5%, en á sama tíma lána þeir sjóðsfélögum sínum fasteignatryggða lán með með 4,15% eða enn hærri vöxtum. Hlutfall lána til sjóðsfélaga er ekki nema brot af heildareign sjóðanna, þ.a. lækkun á vöxtum um 1% til skamms tíma myndi sennilega lækka vaxtatekjur þeirra um 0,1-0,15%.
Heimilin í landinu skulda yfir 800 milljarða vegna íbúðakaupa og hafa meira en tvöfaldast á síðustu 5 árum. Aðrar skuldir heimilanna hafa nær þrefaldast. Á sama tíma hafa meðallaun hækkað um 50%. Vextir eru því mikið stærri hluti af útgjöldum heimilanna í dag en var fyrir 5 árum. Ef kaupmáttur launa verður aftur sá sami og hann var þá, blasir við að heimilin geta ekki staðið undir meira en tvöfalt hærri vaxtagjöldum.
Heimilin í landinu þurfa að fá meira í sinn hlut en eingöngu hjálp þegar allt er komið í kalda kol. Aðgerðir sem stuðla að því að heimilin geti haldið áfram rekstri eru aðgerðir sem koma sér betur fyrir þjóðfélagið í heild. Eðlilegur rekstur heimilanna stuðlar frekar að því að halda hjólum á atvinnulífsins í gangi.
Vaxtalækkun til heimilanna dregur úr kreppunni, gjaldþrotaleið er bara til að auka hana.18.11.2008 | 09:24
Voru það erlendir bankar og fjölmiðlar sem báru ábyrgðina?
Skuldar þúsund milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.11.2008 | 23:42
Hvað eru þetta miklar skuldir?
Undanfarnar vikur er búið að vera að kaffæra okkur í tölum um það hvað búið er að steypa okkur í miklar skuldir. Síðast í dag vorum við upplýst um að væntanleg lántaka ríkisins væri 1.400 milljarðar kr. þar af 600 vegna ISAVE.
Þar sem ég er orðinn ruglaður í öllum þessum tölum fannst mér rétt að setja þessar tölur í samhengi við ýmsar aðrar tölur.
Verg landsframleiðsla (VLF)er í kringum 1.300 milljarðar kr.
Ríkisútgjöld samkvæmt fjárlagafrumvarip 500 milljarðar kr.
Skuldir heimilanna um síðustu áramót voru 1.348 milljarðar kr.
Samanlögð innlán í nýju bönkunum þremur nema 1.156 milljörðum kr.
og útlán til viðskiptamanna 1.826 milljörðum kr.
Heildareignir þeirra nema 2.886 milljörðum kr., sem skiptast þannig að NBI á 1.300, Glitnir 800 og kaupþing 700.
Heildareign lífeyrissjóðanna nam 1.647 milljörðum í árslok 2007.
Þessar stærðir eru teknar saman í eftirfarandi mynd svona til að betur sé hægt að átta sig á hlutföllunum.
Þegar þessar stærðir eru skoðaðar sést að þetta eru gífurlega háar fjárhæðir. Skuldsetning sem er meiri en nemur heildareignum lífeyirssjóðanna, þreföldum útgjöldum ríkisins á einu ári og hærri en verg landsframleiðsla, er sú fjárhæð sem stendur til að taka að láni.
Það kom mér hins vegar verulega á óvart við þessa skoðun hvað heimilin í landinu eru skuldsett. Að skuldir þeirra sé samanlagðar jafn háar og fyrirhuguð lántaka er hreint ótrúlegt. Eignirnar sem standa á móti þessu skuldum eru fasteignir að verðmæti 2.300 milljarðar og aðrar eignir upp á 1.000 milljarða, þar af innistæður upp á 265 milljarða og verðbréf og hlutabréf upp á 427 milljarða. Allar þessar eignir hafa rýrnað á sama tíma og skuldirnar hafa hækkað vegna verðtryggingar og gengisfalls krónunnar. Þannig má búast við að eignarskattsstofn sem var upp á 1.500 milljarða hafi lækkað umtalsvert.
15.11.2008 | 23:58
Lengt í hengingarólinni
Forystumenn stjórnarflokkanna gáfu okkur smá innsýn inn í hvernig þeir ætla að "bjarga" heimilunum.
Fólki svíður hvernig lánin sem það tók til að kaupa íbúðarhúsnæði hækka, á meða fasteignaverð lækkar. Þeir ætla að lengja í hengingaról íbúðarlánanna, þannig að nú skal ekki einu sinni greiða niður lánin, sennilega ekki einu sinni áfallna vexti. Þannig hækka lánin enn meira.
Ef þú missir húsið má íbúðalánasjóður leigja þér það.
Ríkið ætlar ekki að hirða af þér barnabætur og vaxtabætur ef þú skuldar því.
Endurgreiðsla á innflutningsgjöldum bifreiða sem seldar eru úr landi, koma sér sérstaklega vel fyrir almenning í landinu, enda stundar hann útflutning í stórum stíl.
Ríkið á að fara vægar í innheimtuaðgerðir á vanskilum opinberra gjalda, innheimtumenn fá meira að segja leyfi til að fella niður dráttarvexti.
Allar þessar aðgerðir eru til að bæta hag þeirra sem eru að komast í vanskil eða eru þegar komnir í vanskil. Það er skiljanlegt, það getur ekki verið hagur fyrir ríkissjóð að Íbúðalánasjóður safni að sér fasteignum sem þeir geta hvorki selt né leigt og verður því baggi á sjóðnum.
Lausnin á vandamálinu liggur ekki í því að bjarga fólki þegar það er komið í vanskil, nær væri að koma með lausnir sem koma í veg fyrir að fólk lendi í vanskilum. Miðað við þá lagasetningu sem farið hefur frá Alþingi sýnist mér að það væri t.d. hægt að setja lög upp á að vextir af lánum yrðu lækkaðir um 1%. Sú aðgerð myndi ekki kosta ríkissjóð neitt, nema lægri vaxtatekjur. Áhrifin á afborganir íbúðarkaupenda yrðu hins vegar meiri en áhrifin af því að tengja afborganir lána við launavísitölu.
Þegar verðtrygging var tekin upp fyrir tæpum þremur áratugum, þótti mjög gott að vextir væru 0,5-1%. Þá höfðu vextir verið neikvæðir í langan tíma og sparifé brann upp í verðbólgunni. Nú er samdráttur í þjóðfélaginu, allir verða að taka á sig tekjutap og auknar skuldir nema fjármagnseigendur. Stjórnvöld tryggja að þeir missi ekki spón úr aski sínum. Frekar er farin sú leið að fresta tekjum þeirra, en að láta þá missa þær.
Það er óskiljanlegt af hverju þeir eiga ekki að taka á sig hluta af byrðinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.11.2008 kl. 01:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)