Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
11.10.2008 | 13:09
Atvinnumissir -
Starfsmenn bankanna og allir aðrir sem missa vinnuna eiga alla mína samúð.
Mér hefur fundist í allri umræðunni að það hafi gleymst að kreppan er farin að bitna á fólkinu í bönkunum og fjölskyldum þeirra.
Að missa vinnuna er eitt það versta áfall sem hægt er að verða fyrir. Reiðin blossar upp og fólk spyr sig þeirrar spurningar: " Af hverju ér?"
Allar forsendur eru brostnar, og framtíðin er í óvissu. Að vísu er gefinn smá aðlögunartími. En eins og ástandi blasir við okkur núna - er ekki að sjá að það verði þörf fyrir nokkur hundruð manns við sambærileg störf á næstu misserum. Þá vakna spurningarnar um það hvort hægt verði að standa við þær skuldbindingar sem búið er að gera.
Sem betur fer er bjartsýnin ofarlega í upphafi og fólk hefur trú á að fá sambærilegt starf. Samt verður hugurinn verður eins og rússibani sem fer frá því að sjá bjarta framtíð og allt niður í svartnætti þar sem allt virðist vonlaust og ekkert nema gjadþrot blasir við og svo upp aftur. Þetta er tímabil þar sem reynir mikið á einstaklingana og fjölskyldur þeirra. Ástandið á vinnumarkaði hefur sem betur fer verið þannig að flestir hafa fundið vinnu við sitt hæfi. Ef hún finnst ekki þarf að slá af kröfunum og finna sér staf á öðrum vettvangi. Það þarf að taka mikilvægar ákvarðanir eins og hvort bæta eigi við sig menntun til að fá betra starf, eða sætta sig við lægri laun í lengri eða skemmri tíma.
Sem betur fer er svartnættið aldrei svo mikið að það birti ekki upp um síðir. Það sem virðist vera vonlaus staða, er oftar en ekki grunnurinn að því sem leiðir til betra lífs. Þvi eins og frómir menn segja : Viðspyrnan er best af botninum.
![]() |
Starfsmenn enn í óvissu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.10.2008 | 13:52
Fyrirséð ástand ?
Í janúar sl. varaði Moody's við því að erlend starfsemi bankanna væri orðin of stór fyrir Ísland.
Þá segir að helsta áhyggjuefnið sé að Ísland er viðkvæmt gagnvart trúverðugleikabresti, umfram önnur lönd með Aaa-einkunnir, vegna alþjóðlegra umsvifa stóru íslensku viðskiptabankanna. Sömuleiðis er gefið í skyn að ef sú ólíklega atburðarrás hæfist að fjármálakreppa skylli á, myndi það sömuleiðis bitna á ríkinu.
Skýrslan staðfestir áframhaldandi Aaa lánshæfi ríkissjóðs Íslands og getu íslenskra stjórnvalda til að takast á við kerfisbundna krísu innan bankageirans. Hins vegar er sömuleiðis mælt með í skýrslunni að íslensku bankarnir flytji höfuðstöðvar sínar úr landi vegna þess að það myndi að verulegu leyti draga úr fjármálaáhættu íslenska ríkisins og beina henni til betri vegar.
Fréttin í heild: http://eyjan.is/blog/2008/01/28/moodys-hvetur-bankana-til-a%c3%b0-flytja-hofu%c3%b0sto%c3%b0var-ur-landi/
9.10.2008 | 12:17
"Pabbi, er komin kreppa?"
Sonur minn spurði mig í gær, "Pabbi, er komin kreppa?"
Hann er orðinn nógu gamall til að hafa lært í skólanum um Heimskreppuna á fjórða áratug síðustu aldar, og var hræddur um að við værum að missa íbúðina og myndum ekki eiga fyrir mat.
Ég sagði honum eins og er, að það væri ekki enn komin kreppan nema í fjármálaheiminum. Ég sagði honum að kreppa væri það ástand þegar fólk gæti gert minna í dag, en það gat leyft sér í gær og því fylgi líka vöruskortur í búðunum.
Fyrstu áþreifanlegu merkin eru þau að fólk geti ekki leyft sér að gera eða kaupa sömu hluti og það hefur leyft sér áður. Þar sem kreppa einkenndist af skorti á nauðsynjum og að fólk hefur minni pening til að kaupa fyrir. Við gætum ennþá keypt að mestu það sama og við höfum getað leyft okkur á undanförnu.
Hann var samt ekki sáttur við skýringar mínar og hræddur um að ef kreppa kæmi myndum við missa heimili og ekki eiga mat. Þá sagði ég honum að í dag værum við rík þjóð, og það þyrfti miklar breytingar til að kreppan næði svo langt, en í gamla daga vorum við fátæk, og þá þurfti ekki eins mikinn samdrátt til að verða svo fátækur að fólk átti ekki fyrir mat.
Þessar hugleiðingar eru aðallega settar fram vegna þess að þessi mikla umræða er farin að valda ótta hjá öllum. Samt gerir enginn sér almennilega grein fyrir hvernig ástandið er.
8.10.2008 | 13:30
Dansinn í Hruna
Í umræðunni undanfarið rifjast upp fyrir mér þessi gamla þjósaga:
Einu sinni til forna var prestur í Hruna í Árnessýslu, sem mjög var gefinn fyrir skemmtanir og gleðskap. Það var ávallt vani þessa prests, þegar fólkið var komið til kirkju á jólanóttina, að hann embættaði ekki fyrri part næturinnar, heldur hafði dansferð mikla í kirkjunni með sóknarfólkinu, drykkju og spil og aðrar ósæmilegar skemmtanir langt fram á nótt. Presturinn átti gamla móður, sem Una hét; henni var mjög á móti skapi þetta athæfi sonar síns og fann oft að því við hann. En hann hirti ekkert um það og hélt teknum hætti í mörg ár. Eina jólanótt var prestur lengur að þessum dansleik en venja var; fór þá móðir hans, sem bæði var forspá og skyggn, út í kirkju og bað son sinn hætta leiknum og taka til messu. En prestur segir, að enn sé nægur tími til þess, og segir: "Einn hring enn, móðir mín." Móðir hans fór svo inn aftur úr kirkjunni. Þetta gengur í þrjár reisur, að Una fer út til sonar síns og biður hann að gá að guði og hætta heldur við svo búið en verr búið. En hann svarar ávallt hinu sama og fyrri. En þegar hún gengur fram kirkjugólfið frá syni sínum í þriðja sinn, heyrir hún, að þetta er kveðið, og nam vísuna:
- "Hátt lætur í Hruna;
- hirðar þangað bruna;
- svo skal dansinn duna,
- að drengir mega það muna.
- Enn er hún Una,
- og enn er hún Una."
Þegar Una kemur út úr kirkjunni, sér hún mann fyrir utan dyrnar; hún þekkti hann ekki, en illa leist henni á hann og þótti víst, að hann hefði kveðið vísuna. Unu brá mjög illa við þetta allt saman og þykist nú sjá, að hér muni komið í óefni og þetta muni vera djöfullinn sjálfur. Tekur hún þá reiðhest sonar síns og ríður í skyndi til næsta prests, biður hann koma og reyna að ráða bót á þessu vandkvæði og frelsa son sinn úr þeirri hættu, sem honum sé búin. Prestur sá fer þegar með henni og hefur með sér marga menn, því tíðafólk var ekki farið frá honum. En þegar þeir koma að Hruna, var kirkjan og kirkjugarðurinn sokkinn með fólkinu í, en þeir heyrðu ýlfur og gaul niðri í jörðinni. Enn sjást rök til þess, að hús hafi staðið uppi á Hrunanum, en svo heitir hæð ein, er bærinn dregur nafn af, sem stendur undir henni. En eftir þetta segir sagan, að kirkjan hafi verið flutt niður fyrir Hrunann, þangað sem hún er nú, enda er
Það er eitthvað við þessa sögu sem minnir mig á það sem er búið að vera að gerast í bankageiranum um allan heim. Eg held að það séu bara þeir sem tóku þátt í dansinum sem sökkva. En hinur þurfa að hreinsa upp og byggja upp á nýtt.
sagt, að aldrei hafi verið dansað síðan á jólanóttina í Hrunakirkju.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2006 | 15:10
Sorpskrif
Í dag er ég í skapi til að nöldra yfir þjónustugjöldum sem á sífellt fleiri stöðum er verið að leggja á okkur. Þetta er víst til að þess að láta þá sem njóta þjónustunnar borga fyrir hana. En stundum er þetta samfélagsþjónusta sem fólk er í sjálfu sér ekki að njóta.
Eg varð alveg spólandi vitlaus um daginn, þegar ég fór með nokkra kassa af rusli í endurvinnslustöð Sorpu. Þá var nýbúið að taka upp gjald fyrir að losa sig við allt annað rusl en venjulegt heimilissorp. ( Hvað í ósköpunum sem það er ) Þarna hafði ég skotist á bílnum í skítagallanum með nokkrar spónaplötur sem ég hafði brotið í nógu litlar einingar til að koma í skottið á bílnum mínum, og kom þá í ljós að ég átti að borga 560 kr. fyrir að henda þeim. Ég hefði eflaust getað brotið þær í smærri búta og sett í ruslatunnuna heima, til að losna við þetta gjald. En það er ekki ástæðan fyrir nöldrinu heldur það að ég var sem betur fer nýbúinn að losa kjallarann hjá mér við ruslið sem þar var, og það var ekki smáræði, enda voru fyrri eigendur hússins búnir að safna því í 100 ár. Já húsið er 100 ára og höfðu fyrri eigendur ekki tæmt kjallarann hjá sér þegar þeir fluttu út.
Ef ég hefði verið að henda þessu rusli í dag hefði ég mátt punga út talsverðum peningum til að henda rusli sem fyrri eigendur höfðu "tekið til handargagns" eins og það hét þá. Eins og einhver góður maður orðaði það, "þetta er að vísu rusl en það er óþarfi að henda því strax". Þarna voru varahlutir af ýmsu tagi, tæki og tól sem höfðu bilað og var löngu hætt að nota, en hefði á sínum tíma mátt nýta í varahluti, eða til að smíða eitthað annað úr þeim. Magnið sem þarna hafði safnast á einni öld var slíkt að, ég hefði þurft að borga einhverja tugi þúsunda fyrir að farga þessu.
Og er ég sannfærður um þessi gjaldtaka af fólki sem þarf að losa sig við smávegis rusl vegna þess að það er að gera breytingar heima hjá sér verður til þess að einhver á eftir að finna þörf hjá sér að láta ruslið sitt frekar hverfa einhversstaðar úti í hrauni, móa eða sjónum, heldur en fara að borga fyrir að losa sig við það. Því þá gæti hann meira að segja sleppt því þá að flokka ruslið. Fyrir utan að Sorpu er lokað kl 7 á kvöldin, og bara opin sumstaðar um helgar.
Ég held að það væri nær að taka endurvinnslugjaldið af fólki þegar það kaupir vörurnar, því meira að segja byggingarefni kemur fyrr eða síðar til baka í endurvinnslu - ég veit það eftir að hafa átt 100 ára hús. Þetta er nú þegar byrjað, þar sem umbúðagjald er lagt á allar vörur sem framleiddar eru hér á landi og fluttar til landsins. Skilagjald er á plastumbúðum og bílum. Það á að vera hægur vandi að hafa bara almennt sorpeyðingargjald á allar seldar vörur. Hluta af gjaldinu mætti svo nota í holræsagjald til reksturs á skolphreinsistöðvunum, því ekki bíð ég í það þegar settir verða mælar á skolplagnirnar hjá okkur líka, til að auka kostnaðarvitund okkar á því sem frá okkur fer.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)