Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
26.4.2010 | 21:10
Brýnt að bjarga elítunni - hinir geta átt sig
Valinn hópur fólks hafði aðgang að sparisjóðum og bönkum með þeim hætti að þeir gætu keypt stofnfjárhluti og hlutabréf, og fengið kaupverðið að láni. Nú hefur viðskiptaráðherra upp raust sína og segir að það sé brýnt að bjarga þessum útvöldu einstaklingum.
Þorri fólks fékk einungis stór lán til að kaupa sér íbúðarhúsnæði. Þar á meðal var ungt fólk sem var að hefja búskap. Lánið lék við það, bankarnir voru farnir að lána allt að 100% af kaupverðinu. Fæstir létu þó freistast að taka svo stór lán, en lögðu allt sitt sparifé í útborganir. Þetta unga fólk vildi ekki reisa sér hurðarás um öxl og keypti því litla íbúð sem hæfði þáverandi fjölskyldustærð. Ætlunin var að stækka við sig eftir því sem fjölskyldan stækkaði, enda hefðu þau þá eignast meira í íbúðinni og gætu keypt sér stærra húsnæði.
Þessar forsendur eru brostnar, spariféð sem lagt var í íbúðina er horfið. Skuldirnar komnar langt upp fyrir vermæti íbúðarinnar, og greiðslubyrðin hefur þyngst verulega. Lausn ríkisstjórnarinnar var að lækka greiðslubyrðina. Það hjálpar til skamms tíma, en skilar einungis þeim árangri að fólkið á sífellt minna í eigninni. Eins og dæmið lítur út í dag, verða þau sennilega búin að borga svo mikið í íbúðinni að verðmæti hennar verði meira en skuldirnar eftir 5-7 ár. Þá tekur sennilega 10 ár að safna sér pening til að kaupa stærri eign. Þetta gera 15-17 ár, þangað til verða þau að vera í sinni 2ja herbergja íbúð. Þá tekur því varla að kaupa stærri eign þar sem til börnin verða flutt að heiman.
Eru skilaboðin sem ríkisstjórnin er að senda fólkinu þau að það eigi ekki að eiga börn?
Steingrímur fjármálaráðherra sagði á Alþingi í dag að vaxtabætur hafi verið hækkaðar verulega. Sú hækkun kemur þeim fjölskyldum sem skulda meira en 15 milljónir ekki til góða, nema að hluta vegna hámarks á vaxtagjöldum til útreiknings vaxtabóta, kr. 901.158. Um síðustu áramót sagði hann að þessi hækkun á vaxtabótakerfinu myndi hjálpa fólki vegna aukinna verðbóta af lánunum. Þetta er hins vegar ekki rétt, þar sem þetta fólk var að borga meira en 900 þús kr. af íbúðarlánunum í vexti á síðasta ári, og þegar vaxtagjöldin hækka í 990 þús. kr. hækka vaxtabæturnar ekki neitt, þar sem það var þegar búið að ná hámarkinu. Þetta fólk verður sjálft að bera skaðann af hækkuninni.
Brýnt að leysa vanda stofnfjáreigenda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |