Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009
22.8.2009 | 17:18
Skjaldborg og U beygja
Bágt á ég að trúa því að það séu einhverjar raunverulegar aðgerðir til hjálpar heimilunum í landinu sem séu í smíðum hjá félagsmálaráðherra. Þessi ríkisstjórn lofaði að skjaldborg yrði slegin um heimilin í landinu.
Margir hafa spurt hvar er þessi skjaldborg eiginlega, og hvar eru þær aðgerðir sem átti að fara í til að hjálpa heimilunum? Eftir því sem ég kemst næst, er þessi skjaldborg byggð upp í þremur lögum, í fyrsta lagi lægri launum, í öðru lagi hærri sköttum og í þriðja lagi mikilli verðbólgu sem hækkar skuldir heimilanna og eykur greiðslubyrgði þeirra. Skjaldborgin er svo öflug að hún er hreinlega að leggja heimilin í rúst fjárhagslega. En hverja hún er að verja er mér hulin ráðgáta
Ég verð að segja að það vekur furðu mína hvernig allir virðast hafa tekið U-beygju á síðasta ári. Getur það verið að Steingrímur J hafi verið með ábyrgðarlaust gaspur þegar hann var í stjórnarandstöðu.
Ráðherra vill afskrifa skuldir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.8.2009 | 21:16
Þurfa allir samskonar aðgerðir? - væri það sanngjarnt?
Dæmisaga um Jón og Gunnu sem keyptu samskonar íbúð á árunum 2004 og 2006. Bæði tóku þau 100% lán vegna kaupanna. Til að einfalda dæmið skulum við reikna með að þau hafi ekki greitt neinar afborganir og að lánin séu vaxtalaus, en vísitölubundin, þannig að höfuðstóllinn hafi hækkað vegna verðbótanna og að verð íbúðanna hafi hækkað og lækkað til samræmis við vísitölu íbúðarverðs á höfuðborgarsvæðinu.
Jón keypti sér íbúð í maí 2004 á kr. 12,5 m.kr. Gunna keypti sér samskonar íbúð í maí 2006, hún þurfti að borga 19,6 m.kr fyrir hana. Bæði keyptu þau íbúðirnar á markaðsverði. Í júní 2009 myndu fást 19,9 m.kr. fyrir þessar íbúðir. Í dag myndi Jón skulda 18,4 m.kr. í íbúðinni, hefur eignast 1,5 m.kr. án þess að borga neitt niður af upphaflegu láni, en Gunna skuldar 26,1 m.kr. eða 6,2 m.kr. meira en nemur verðmæti íbúðarinnar.
Ef við veljum þá aðferð að skrifa allar skuldir niður um 20%, þá myndi Jón vera búinn að eignast 5,2 m.kr í íbúð sinni án þess að hafa borgað nokkuð, en Gunna myndi enn skulda 1 m.kr. umfram íbúðarverðið.
Sömu sögu er að segja ef valin væri sú aðferð að lækka öll lán um 4 m.kr. nema hvað Jón myndi græða meira á þeirra aðferð og eiga 5,5 m.kr. og Gunna myndi skulda 2,2 m.kr. umfram það sem hún fengi fyrir íbúðina. Það er því ekki til einföld leið til að koma til móts við skuldsett heimili.
Aðferðir eins og flöt niðurfærsla lána hvort heldur er í krónutölu eða prósentum kæmi sér betur fyrir þá sem áttu íbúðir áður en verð þeirra fór að hækka óeðlilega en þá sem lenda í því að kaupa íbúð á of háu verði þannig að lánin hafa hækkað meira en íbúðirnar frá því að þeir keyptu. Það er engin ástæða til að eyða fjármunum til að hjálpa þeim sem engu hafa tapað eins og Jóni.
Ef greiðslur af þessum lánum eru farnar að verða of erfiðar fyrir þau Jón og Gunnu, gæti það hjálpað verulega að lækka vextina af lánunum. Þannig myndi 1% vaxtalækkun lækka árlega greiðslu vaxta hjá Jóni um 184.000 á ári eða 15.000 kr. á mánuði, og hjá Gunnu um 260.þús kr. á ári eða tæplega 21 þús kr. á mán. Vaxtalækkun er leið þar sem greiðslubirgði er lækkuð og gæti leyst vanda Jóns og Gunnu án þess að vera að gefa þeim neitt.
Gunna verður bara að vona að íbúðin hækki aftur í verði svo hún eignist eitthvað i henni. Það hvort Gunna á eitthvað í íbúðinni eða ekki verður ekki vandamál nema hún ætli að selja íbúðina. Þá má hjálpa Gunnu því að færa lánið hennar niður.
Ræða stöðu heimilanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)