Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
18.10.2008 | 01:41
Samantekt
Hvað er það sem söguskoðunarmenn sjá eftir 20 ár. Verða það Jón Ásgeir, Hannes Smárason, Geir Haarde og Davíð Oddsson, sem verða helstu aðilar í þessari kreppu sem nú er að skella á okkur? Munu þeir kenna stjórnendum bankanna um ástandið? Eða munu þeir yfir höfuð persónugera það ferli sem er að eiga sér stað? Ég held ég geti fullyrt að svo verður ekki. Þá munu þeir sjá hlutina í stærra samhengi.
Þeir munu sjá lengra ferli, þeir gætu rifjað upp þegar, frjálshyggjupostuli, að mig minnir Milton Friedman heimsótti Ísland á seinni hluta níunda áragugs síðustu aldar og færði okkur þau tíðindi að framtíðartækifæri Íslands lægju í bankastarfsemi. Ísland gæti orðið miðstöð bankaviðskipta eins og Luxemburg eða Sviss. Þeir munu sjá ríkisstjórn sem kemur hjólunum af stað á tíunda áratugnum, þar sem megináherslan er á að einkavæða ríkisstofnanir og nota söluandvirðið til að borga niður skuldir ríkisins. Aðgerðir þessarar ríkisstjórnar leiða til þess að verðbólga minnkar á sama tíma og uppbygging verður í landinu. Þegar hún tekur við er atvinnuleysi meiri en íslendingar höfðu kynnst í áratugi en hverfur fljótt á valdatíma hennar. Á sama tíma er gerður samningur við Evrópusambandið, sem á þeim tima þykir góður og felur m.a. í sér frjálst flæði fjármagns og vinnuafls milli landa. Þar sem aðgerðirnar og samningurinn höfðu borið svona góða árangur var haldið áfram á sömu braut, flytja verður inn vinnuafl frá öðrum löndum.
Upp úr aldamótum var ákveðið að taka upp svokallaða peningamálastefnu, þ.e. nota aðeins vexti til að stýra verðbólgu í landinu. Vextir höfðu einmitt verið það stjórntæki sem notað var í stóru hagkerfunum með stóru gjaldmiðlana. Þegar á reyndi voru vextirnir með öllu gagnslausir til að stjórna peningaflæðinu, og höfðu í raun þveröfug áhrif. Vaxtamunur við önnur lönd varð það mikill að það reyndist hagkvæmt að taka lán í annarri mynt og lána í krónum.
Farið er í stórar framkvæmdir, álver í Reyðarfirði og stærstu virkjanaframkvæmdir sem gerðar hafa verið á landinu. Þessar framkvæmdir einar og sér reyndu mikið á þanþol hagkerfisins.
Til að bæta gráu ofan á svart var ákveðið að hækka lánshlutfall á lánum frá Íbúðarlánasjóði. Við þá aðgerð fór allt úr böndunum, bankarnir misstu við þessa aðgerð af lánum sem höfðu verið tekin hjá þeim, svo þeir fóru í samkeppni við Íbúðalánasjóð, lánuðu bæði hærra hlutfall og buðu líka lán til langs tíma sem fólk notaði til að greiða upp skammtímalán sem það hafði. Þessi langtímalán voru fjármögnuð með því að taka lán í skemmri tíma erlendis sem báru lægri vexti, enda voru sett inn ákvæði um endurskoðun vaxtanna eftir 5 ár hjá flestum bönkunum.
Þetta mikla flæði á fjármagni í annarri mynt leiddi til þess að gengi krónunnar var allt of hátt skráð. Þessi háa gengisskráning leiddi til þess að fólk var farið að hafa efni á að kaupa alls konar hluti frá útlöndum sem það hafði ekki haft efni á áður og skreppa nokkrum sinnum á ári til útlanda.
Þetta mikla fjármagnssreymi gaf vel af sér. Bankarnir stækkuðu og juku starfsemi sína erlendis. Þeir fengu hæstu einkunn hjá þeim aðilum sem lögðu mat á lánshæfi þeirra. Að vísu fylgdi með í þeirri einkunnargjöf að þeir þyrftu að fara að koma sér upp dótturfyrirtækjum í þeim löndum þar sem þeir væru með starfsemi, því eins og þeir orðuðu það, "ef svo ólíklega vildi til að fjármálakreppa skylli á, myndi það bitna á Íslenska ríkinu".
Þegar þessum stóru framkvæmdum lauk í árslok 2007 og á fyrri hluta árs 2008 minnkaði spennan. Þá gerðist það á sama tíma að það varð sepnnufall á fjármagnsmarkaði í heiminum, bankar víða um heim fóru að riða til falls. Fjármálakreppa var skollin á, og bankarnir höfðu ekki bolmagn til að standast hana. Vegna þess að það var enn þennsluástand í landinu verður kreppan harkalegri en hún hefði orði ella.
Eftir að hafa rakið þessa atburðarás er mér spurn, er það einhverjum fáum einstaklingum að kenna að bankarnir riðu til falls, eða er það röð atburða og stjórnvaldsákvarðana langt aftur í tímann sem er ástæðan?
Á að sækja einhverja til saka? Mér er minnisstætt dæmi frá áttunda eða níunda áratug síðustu aldar þegar maður hlaut dóm fyrir að lána með okurvöxtum. Blekið var varla þornað á dómsorðunum þegar lögum um vexti var breytt og þeir gefnir frjálsir. Fyrir rúmum 20 árum féll líka fangelsisdómur vegna peningabréfa - ekki ósvipuðum þeim sem bankarnir gáfu út og geta ekki greitt út núna. Væri ekki rétt að dæma sjóðsstjórana nú á sömu rökum?
Það er mín trú að enginn hafi vísvitandi verið að svíkja, og beri því ekki að sakfella neinn. Hvað umtalaða sjálftöku auðmanna varðar, hefur það aldrei þótt refsivert að skara eld að eigin köku svo lengi sem það er gert innan ramma laganna. Siðferðið er allt annað mál.
Niðurstaða mín þegar ég skoða þessa samantekt er að ástandið er pólitíkst kjörnum fulltrúum okkar að kenna.
17.10.2008 | 23:11
Ekki fleiri álver - kvóti í ferðaþjónsustu
Ég hef ekkert á móti stóriðju - og tel mig ekki vera náttúruverndarsinna - en af efnahagslegum ástæðum fyrir þjóðarbúið frábið ég mér að fjölga álverum. Nú þegar er útflutningur á áli 40% af heildarútflutningi á vöru frá Íslandi, fiskútflutningur 40%, og restin vegna útflutnings á öðrum vörum.
Við eru nú þegar orðin of háð verði á áli, tekjur af orkusölu eru háðar álverði. Við þurfum meiri fjölbreytni í útflutninginn. Iðnfyrirtæki sem er aðeins með tvær vörutegundir, þykir ekki byggja á traustum grunni, þess vegna fara þau í vöruþróun svo þau geti fjölgað vörutegundunum. Það er einmitt það sem við verðum að gera líka.
Þess vegna ættu stjórnvöld að greiða fyrir þeim aðilum sem vilja koma með annarsskonar starfsemi til landsins. Ein hugmynd sem hefur verið uppi á borðinu er netþjónabú, önnur er olíuhreinsunarstöð og þær eru margar fleiri. Við mat á þessum kostum þurfum við að hafa þá samninga sem við höfum gert til hliðsjónar, eins og um mengun, sem og arðsemi fyrir viðkomandi grein og þjóðarbúið í heild.
Séu það náttúruverndarsjónarmið sem verða ofaná og við viljum efla ferðaþjónustuna, þá getur það leitt til þess að ágangur ferðamanna á viðkvæm svæði verður of mikill. Okkar helstu ferðamannastaðir þola ekki mikinn ágang. Gróður á Íslandi er mjög viðkvæmur fyrir öllum ágangi, þannig get ég séð það fyrir mér að með óheftum ágangi ferðamanna verði helstu staðir orðnir að drullusvaði á stuttum tíma, eða það þurfi að byggja mannvirki til að verja þau. Til að sporna við því hefur þeirri hugmynd skotið upp í kollinum á mér að það þyrfti að setja takmörkun á fjölda ferðamanna. Það er líka hægt að takmarka aðgang með því að láta greiða aðgang að þeim og jafnvel banna aðgang á tímum þegar svæðin eru viðkvæm. Einnig væri hægt að setja kvóta, ekki ósvipaðan fiskveiðikvótanum, þar sem t.d. væri heildarfjöldi ferðamanna á Hornströndum takmarkaður við 5.000 manns á tímabilinu maí-ágúst, sem síðan væri seldur hæstbjóðanda. Kvótinn fundinn með því að hæfir menn myndu meta hvað viðkomandi svæði þyldi mikinn ágang. Með þessu móti væri hægt að ná meiri hagkvæmni út úr ferðaþjónustunni, þar sem uppbyggingin væri í samræmi við fjölda gesta.
Þetta er sett fram sem hugmyndir, þar sem ég á eftir að vega kosti þeirra og galla.
17.10.2008 | 00:05
Efling landsbyggðarinnar er grunnurinn að uppbyggingu í efnahag landsins.
Afleiðingar kreppunnar eru enn ekki farnar að koma í ljós, en samt finnst mér orðið tímabært að menn fari að huga að því hvernig best verði staðið að uppbyggingu. Hún verður að vera þannig að hún sé varanleg, en ekki bara einhver bóla.
Nú þegar fjármálabólan er sprungin er sennilega öllum ljóst að uppgbyggingin verður að vera á traustari grunni. Þennslan sem fylgdi henni fór að mestu fram hjá landsbyggðinni, náði ekki mikið meira en 100 km út fyrir Reykjavík, og stór hluti eyðslunnar sem henni fylgdi fór fram í öðrum löndum. Það er í sjálfu sér ekki skrýtið að peningunum hafi verið eytt í útlöndum, gengið var allt of hátt skráð, þannig að það var næstum sama hvert var farið, það var ódýrara að versla þar en á Íslandi. Það voru ekki bara þeir "ríku" sem eyddu í útlöndum, það gerði hálf þjóðin, mismikið þó. Við höfum misst frá okkur bæði hátækniiðnað og hugbúnaðarfyrirtæki úr landi af sömu ástæðum.
Á sama tíma skapaðist vandræðaástand á landsbyggðinni, settar voru saman nefndir til að greina vandann og koma með tillögur til að ekki leggðist af byggð utan höfuðborgarsvæðisins. Þó svo að kreppan komi til með að skella með mestum þunga á því svæði, tel ég að til að ná varanlegri uppbyggingu verði að efla atvinnulífið utan þess. Þar er ég að tala um frumvinnslugreinar ferðaþjónustu iðnað og fleira. Styðja verður við sprotafyrirtæki og hvetja þau til að vera með starfsemi á landsbyggðinni með bættum samgöngum og minni tæknilegum hindrunum í útflutningi.
Höfuðborgarsvæðið kemur til með að þjóna landsbyggðinni með sama hætti og áður hún mun bara byggja á traustari grunni en áður. Það er tilhneiging að leita að þjónustu í stærri kjarna sem geta veitt sérhæfðari þjónustu. Ég tel að með þessum hætti fáist tækifæri til efla landsbyggðina á sama tíma og komið er traustari fótum undir efnahag landsins.
15.10.2008 | 12:38
Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja.
Fyrir rúmlega 30 árum voru nokkrir ungir menn sem tóku sig saman og stofnuðu lítið fyritæki. Þó svo þetta fyrirtæki sé sennilega ekki lengur til og þeir búnir að snúa sér að öðrum störfum, hefur þetta fyrirtæki skilið eftir sig stórt spor á Íslandi.
Þessir menn vildu nota iðnmenntun sína, en þeir voru menntaðir skipasmiðir, með þeim síðustu sem lærðu að smíða tréskip. Þeir gerðu sér grein fyrir að þær aðferðir sem þeir höfðu lært voru ekki eins hagkvæmar og komin ný efni til bátasmíði. Þeir fóru að smíða smábáta úr trefjaplasti.
Á þessum tíma þótti þetta mikil bjartsýni, enda hafði útgerð smábáta nær lagst af í landinu. Allar alvöru útgerðir voru í togaraútgerð, og stærri báta sem hægt var að gera út allan ársins hring, og voru ekki eins háðir veðri og vindum. Það voru því nær eingöngu gamlir sjómenn og grásleppukallar sem gerðu út smábáta á þessum tíma.
Þar sem þetta voru ódýrir bátar sem gátu borgað sig fljótt óx smábátaútgerðin fljótt. Með tilkomu kvótakerfisins varð þetta eina leiðin til að komast inn í útgerð. Bátarnir breyttust stækkuðu lítillega og urður hraðskreyðari. Nú er svo komið að útgerð smábáta er stór og hagkvæm atvinnugrein sem enn er að þróast. Nýjasta afbrigði hennar er nátengdur ferðaþjónustu þ.e. sjóstangveiði. En það útgerðarform krefst talsvert meiri uppbyggingar í landi.
Þegar við skoðum sögu síðustu þrjátíu ára má sjá að þetta litla fyrirtæki hefur sennilega lagt meira til að viðhalda byggð í smærri byggðum en þau álver sem byggð hafa verið.
Það getur því verið betra að hlúa að frumkvöðlum í litlum fyrirtækjum - en eyða stórfé í stórfyrirtæki.
15.10.2008 | 09:37
Hver ber ábyrgð á því að keisarinn er nakinn?
Það kalla margir á að hinir og þessir eigi að bera ábyrgð.
Davíð, fjármálaeftirlitið, bankastjórarnir o.s.frv. Stjórnmálamenn eru sérstaklega duglegir við að vilja draga einhvern til ábyrgðar, en hver er ábyrgð þeirra sjálfra? Sáu þeir ekki varnaðarorðin? Matsfyrirtækin voru búin að gefa aðvaranir um leið og þau gáfu lánshæfireinkunnir. Ég man ekki betur en þeir hafi bara þótt vera vondir kallar í útlöndum sem ekki þekktu neitt inn á íslenskt efnahagslíf.
Það er ekki tímabært að darga einhverja einstaklinga til ábyrgðar - síst af öllu á meðan mesti æsingurinn er í gangi. Rykið verður að fá að setjast svo hægt sé að sjá hvert tjónið er. Þá fyrst er tímabært að draga einhverja til ábyrgðar. Það verður þá líka að svara spurningunni, hvor á að bera ábyrðina - sá sem setti reglurnar eða sá sem fór eftir þeim?
15.10.2008 | 00:16
Jaðarbyggð í Norður-Atlantshafi
Ísland á mælikvarða heimsins er álíka merkilegt og Suðureyri eða Djúpivogur er í hugum fólks sem býr á Höfuðborgarsvæðinu. Fólk veit að þessir staðir eru til og eru einhversstaðar úti á landi, þ.e. meira en 100 km frá Reykjavík, en gætu ekki hugsað sér að búa þar. Þetta er eitt þeira atriða sem við verðum að velta fyrir okkur í umræðunni um hvort við viljum vera í Evrópusambandinu.
Nú þegar erum við bundin af ýmsum misgáfulegum tilskipunum. Eitt dæmi er að vegna Shengen samningsins er ekki lengur heimilt að fljúga frá Ísafirði til Grænlands, en Ísafjörður hafði í mörg ár þjónað þeim sem vildu fara til Austur-Grænlands. Áður en samningurinn tók gildi hér á landi var algeng sjón á sumrin að sjá flugvélar útbúnar með skíðum til að lenda á jöklinum fljúga frá Ísafirði. Þetta flug skapaði vinnu við að þjónusta þetta flug og þá sem voru að fara þessa leið. Nú er það liðin tíð. Vegna Shengen er utanlandsflug eingöngu heimilt frá 4 flugvöllum, Reykjavík, Keflavík, Akureyri og Egilsstöðum. Þetta hefur valdið flugmönnum lítilla flugvéla sem ætla frá Evrópu til Ameríku vandræðum, þar sem styst er að fljúga frá Færeyjum á Hornafjörð og frá Ísafirði til Grænlands.
Miðað við reynsluna hér á landi er hægt að setja alls konar tæknilegar hindranir. Hérna eru líka í gildi tæknilegar hindranir, t.d. fer allur útflutningur á sjó í gegnum 3 hafnir, Reykjvavík, (frá Grundartanga að Straumsvík), Vestmannaeyjar og Eskifjörð. Þetta ákvæði gerir það að verkum að framleiðsla á vörum til útflutnings er dýrari á öllum öðrum stöðum en þessum þremur, þar sem flytja þarf vöruna með ærnum kostnaði, landleiðina til einhvers þessarra þriggja staða. Þó gæti verið að fiskafurðir séu undanþegnar þessu ákvæði, en þó held ég að einungis þeir staðir sem Fiskistofa er með starfsstöð bætist við listann um útflutningshafnir.
Svona tæknilegar hindranir hafa ekki verið til að efla byggð utan Reykjavíkur, og leitt til þess að þjónusta sem þar hefur verið hefur lagst af. Það er eflaust hægt að telja upp fjölda sambærilegra dæma. Er þetta sú byggðastefna sem við viljum.
Ef við setjum þetta í stærra samhengi, þá tel ég að þetta verði eitt þeirra vandamála sem við komum til með að kljást við ef við göngum í Evrópusambandið. Það eru margir búnir að fjalla um ávinninginn svo ég ætla ekki að fjalla um hann hér að öðru leiti en því að með fullri aðild getum við haft áhrif á þær reglur sem settar eru.
14.10.2008 | 17:17
.... skil ekki....
Stóð Egill sig vel?
Hvernig gat þetta gerzt?
Víðáttuvitleysa að útrásin sé blekking
Rétti tíminn að afnema eftirlaunaósóma þingmanna
Íslenskur bóndi færði póstkassann -klagar póstinn, því hann fékk engan póst
Loksins fann ég fyrirsögn á blogginu sem ekki tengist því ófremdarástandi sem er á fjármálamörkuðum heimsins og fjallaði ekki um einkalíf viðkomandi bloggara.
Satt best að segja er ég orðinn kolruglaður á að lesa skoðanir alls þessa fólks. Ég veit ekki hvort þessi kreppa er húskaupendum í Bandaríkjunum að kenna, nokkrum einstaklingum hér á landi sem töldu sig vera að eiga í tryggum viðskiptum en reyndust hafa tekið of mikla áhættu, kerfinu eða bara hreinlega mér.
Ég játa fúslega á mig mína sök í málinu. Ég tók stórt íbúðarlán þegar ég flutti suður, því ekki átti ég mikið eftir þegar ég var búinn að selja íbúðina mína á Ísafirði. Þannig kom það sér vel fyrir mig hvað bankarnir voru viljugir að lána til íbúðarkaupa á árunum 2004-2006. Ég keypti mér líka bíl, auðvitað með láni, svo er ég með kreditkort og yfirdrátt á launareikningnum eins og svo margir. Með þessari hegður hef ég gerst sekur um að eyða um efni fram. Verð að borga af íbúðinni langt fram á elliár, ef mér endist þá aldur til þess að borga það upp.
Lendir skuldin þá á börnunum? Nei auðvitað ekki, því ég ætla rétt að vona, að þrátt fyrir að íbúðarverð lækki sennilega á næstunni á meðan lánið hækkar, þá muni ég smám saman eingnast eitthvað í henni. Þetta er langtímafjárfesting fjármögnuð með langtímaláni. Satt best að segja var mér sama hvort ég keypti þessa íbúð, eða myndi leigja. Markaðuri fyrir íbúðarhúsnæði var þannig og er sennilega enn, að það var dýrara fyrir mig að taka íbúð á leigu heldur en kaupa. Fyrir utan það að með því að kaupa var ég kominn í langtímahúsnæði. Ég man það þegar ég var á leigumarkaðinum fyrir mörgum árum síðan, þá þurfti maður að flytja amk. einu sinni á ári, stundum oftar.
Með þessum íbúðarkaupum skulda ég 300% af árstekjunum. Þó svo ég hafi tekið lánið í krónum með verðbótum, fæ ég ekki betur séð að ég hafi lagt mitt á vogarskálarnar við að auka skuldir þjóðarinnar, þar sem bankinn hefur örugglega fjármagnað það með erlendu láni. Tilgangurinn var ósköp saklaus, ég vildi bara eiga samastað fyrir mig og mína fjölskyldu.
12.10.2008 | 23:10
ESB, frjálst flæði fjármagns - frjáshyggja?
Síðustu vikurnar áður en bankakrísan skall á okkur höfðu verið í gangi miklar umræður um að Ísland ætti að ganga í ESB og taka upp Evru sem gjaldmiðil. Ég geri mér enga grein fyrir hvaða áhrif það hefði haft í stöðunni í dag ef við hefðum verið orðin fullgildir aðilar að Evrópusambandinu, a.m.k. hefði sú rússibanareið sem krónan er búin að vera á aldrei orðið og þjóðin ekki staðið frammi fyrir gjaldeyrisskorti og óvissu um hvers virði krónan er.
Á móti má líka segja að vegna þeirra samninga sem við höfum gert um frjálst flæði fjármagns við ESB, þá erum við að lenda í því að fjármálafyrirtækin eru búin að bólgna út í öðrum löndum, en ábyrgðin vegna starfseminnar verið skilin eftir hér á landi. Í þessu liggur einmitt sá vandi sem leiddi til hruns bankanna. Það mátti helst ekki setja neinar hömlur á hvað þau gerðu, sem er í sjálfu sér í lagi, ef allir geta sætt sig við að þeir tapi á því ef dæmi gengur ekki upp. En vestrænar þjóðir geta ekki sætt sig við slíkt og því er þessi frjálshyggja rekin með ríkisábyrgð upp að vissu marki.
Að fara hálfa leið í frjálshyggjunni er verra en fara ekki af stað.
En vandi okkar liggur einmitt í því að við vorum skilin eftir með ábyrgðina - þrátt fyrir aðvaranir frá matsfyrirtækjunum, sem merkilegt nokk gáfu hæstu lánshæfiseinkunn þrátt fyrir þá áhættu sem í þessu fólst. Meira að segja eftir að farið var að grafa undan fjármálastofnunum í Bandaríkjunum.
11.10.2008 | 13:09
Atvinnumissir -
Starfsmenn bankanna og allir aðrir sem missa vinnuna eiga alla mína samúð.
Mér hefur fundist í allri umræðunni að það hafi gleymst að kreppan er farin að bitna á fólkinu í bönkunum og fjölskyldum þeirra.
Að missa vinnuna er eitt það versta áfall sem hægt er að verða fyrir. Reiðin blossar upp og fólk spyr sig þeirrar spurningar: " Af hverju ér?"
Allar forsendur eru brostnar, og framtíðin er í óvissu. Að vísu er gefinn smá aðlögunartími. En eins og ástandi blasir við okkur núna - er ekki að sjá að það verði þörf fyrir nokkur hundruð manns við sambærileg störf á næstu misserum. Þá vakna spurningarnar um það hvort hægt verði að standa við þær skuldbindingar sem búið er að gera.
Sem betur fer er bjartsýnin ofarlega í upphafi og fólk hefur trú á að fá sambærilegt starf. Samt verður hugurinn verður eins og rússibani sem fer frá því að sjá bjarta framtíð og allt niður í svartnætti þar sem allt virðist vonlaust og ekkert nema gjadþrot blasir við og svo upp aftur. Þetta er tímabil þar sem reynir mikið á einstaklingana og fjölskyldur þeirra. Ástandið á vinnumarkaði hefur sem betur fer verið þannig að flestir hafa fundið vinnu við sitt hæfi. Ef hún finnst ekki þarf að slá af kröfunum og finna sér staf á öðrum vettvangi. Það þarf að taka mikilvægar ákvarðanir eins og hvort bæta eigi við sig menntun til að fá betra starf, eða sætta sig við lægri laun í lengri eða skemmri tíma.
Sem betur fer er svartnættið aldrei svo mikið að það birti ekki upp um síðir. Það sem virðist vera vonlaus staða, er oftar en ekki grunnurinn að því sem leiðir til betra lífs. Þvi eins og frómir menn segja : Viðspyrnan er best af botninum.
Starfsmenn enn í óvissu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.10.2008 | 13:52
Fyrirséð ástand ?
Í janúar sl. varaði Moody's við því að erlend starfsemi bankanna væri orðin of stór fyrir Ísland.
Þá segir að helsta áhyggjuefnið sé að Ísland er viðkvæmt gagnvart trúverðugleikabresti, umfram önnur lönd með Aaa-einkunnir, vegna alþjóðlegra umsvifa stóru íslensku viðskiptabankanna. Sömuleiðis er gefið í skyn að ef sú ólíklega atburðarrás hæfist að fjármálakreppa skylli á, myndi það sömuleiðis bitna á ríkinu.
Skýrslan staðfestir áframhaldandi Aaa lánshæfi ríkissjóðs Íslands og getu íslenskra stjórnvalda til að takast á við kerfisbundna krísu innan bankageirans. Hins vegar er sömuleiðis mælt með í skýrslunni að íslensku bankarnir flytji höfuðstöðvar sínar úr landi vegna þess að það myndi að verulegu leyti draga úr fjármálaáhættu íslenska ríkisins og beina henni til betri vegar.
Fréttin í heild: http://eyjan.is/blog/2008/01/28/moodys-hvetur-bankana-til-a%c3%b0-flytja-hofu%c3%b0sto%c3%b0var-ur-landi/