10.2.2009 | 22:15
1,5 milljóna kr. lækkun eigna á hvert mannsbarn
181 milljarða tap lífeyrissjóða segir ekki nema hálfa söguna um skelfilega lélega afkomu þeirra á síðasta ári og er í besta falli léleg blekking á því hversu miklu þeir töpuðu.
Á vefsíðu Landssambands lífeyrissjóða www.ll.is/?i=2&f=8&o=1016 er tafla sem sýnir stöðu þeirra um áramótin 2007-8 annars vegar og síðustu áramót hins vegar. Þar sést að að nafnvirði lækkaði eign þeirra um 40 milljarða. Ef eignin er uppreiknuð eins og um verðtryggða eign væri að ræða kemur í ljós að eignirnar lækka um 352 milljarða kr. Miðað við upplýsingar á vefsíður ríkisskattstjóra, reiknaði ég út að innborguð iðgjöld umfram greiðslur vegna lífeyris væru um það bil 40 milljarðar kr. árið 2007. Með því að bæta þeirri fjárhæð við framangreint tap er tap þeirra á árinu 2008 nærri 400 milljarðar kr. Til samanburðar nema heildarútgjöld ríkisins samkvæmt fjárlögum ársins 2009 500 milljörðum.
Þetta eru skelfilega háar fjárhæðir, þetta er tap sem nemur 1,5 milljónum kr. á hvert mannsbarn á Íslandi.
Þegar taflan er uppreiknuð sést að einungis sjóðfélagalán hafa hækkað milli ára, aðrar eignir hafa minnkað um 1,5%-20,5%. Þannig hefur heildareign sjóðanna lækkað um 17,5%.
Þetta er ekkert smá tap sem sameiginlegur sjóður landsmanna hefur orðið fyrir á einu ári. Mér er spurn hvort stjórnendur þessara sjóða séu starfi sínu vaxnir. Þeir ættu í það minnsta að vera það, þegar litið er á hvað þeir hafa fengið greitt í laun, hvort heldur við erum að tala um laun til forstjóra á bilinu 20-30 milljónir á ári, eða til stjórnarmanna sem nema verkamannalaunum fyrir að sitja í stjórn sjóðanna.
Ég veit það alla vega að ef hlutafélag sýndi afkomu af því tagi sem lífeyrissjóðirnir eru að sýna væri búið að reka stjórnendurna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.