25.1.2009 | 23:32
Tími stjórnleysis og tími án ákvarðana þarf að vera stuttur -
Það er orðið ljóst að það verður kosið í síðasta lagi í maí n.k. Stjórnmálaflokkarnir eru að gera klár til að útbúa loforðalista þar sem okkur verða boðnar þær kræsingar sem þykja girnilegastar núna.
Listinn mun samanstanda af frösum í líkingu við "Gerum allt sem í okkar valdi er til að koma til móts við vanda heimilanna" og "Skapa þarf nokkur þúsund ný störf, til að vinna bug á atvinnuleysi".
Ef að líkum lætur munu frambjóðendur gefa allskonar loforð sem hljóma vel, þó svo þeir hafi engan skilning á því hverju þeir eru að lofa og því síður gera þeri sér nokkra grein fyrir hvaða áhrif þær aðgerðir sem þeir lofa munu skila. Þeir vita eins og er að ef það hljómar vel munu kjósendur falla fyrir því, þeir skilja oftast ekki heldur um hvað málin snúast.
Þegar búið er að kjósa kemur svo að embættismönnunum að reyna að koma þessum loforðum í það form það það virki trúverðugt fyrir lýðnum þá verða til alls konar undarlegar samsetningar eins og tekjutenging á bótum til að hægt sé að lækka skattaprósentuna. Þeir sem græða á slíkum aðgerðum eru hátekjumenn og kannski líka þeir allra tekjulægstu, en þeir sem eru þarna á milli sitja uppi með að borga mun hærri jaðarskatt en aðrir. Þannig er maður sem á þrjú börn og fær barnabætur að borga 7% hærri jaðarskatt en sá sem hefur svo háar tekjur að hann er hættur að fá bæturnar. Væri ekki sniðugra að hækka skatthlutfallið og hætta tekjutengingunni.
Það er rétt hjá nafna mínum að fram að kosningum verður ekki tekið á erfiðum málum með því að taka óvinsælar ákvarðanir, þar sem slíkt veldur tapi á fylgi. Þess vegna verður ekki leyst úr nema brýnustu úrlausnarefnum og í raun ekki hægt að taka neina stefnu, þar sem ljóst er að ekki verður unnt að komast á neinn áfangastað fyrir kosningar.
Það er hins vegar spurning hvort það sé ekki fórn sem þarf að færa til að ljóst sé að þeir sem fara með stjórnvöldin hafi til þess umboð fólksins. Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða. Því fyrr sem kosið er, því fyrr verður hægt að taka á þeim málum sem þarf og taka nýja stefnu og vonandi hreinsa skítinn úr hornunum, í stað þess að sópa honum undir teppið´.
Upphaf á kosningabaráttunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Stjórnleysi í a.m.k. 5 ár...
Lesið þingsályktunartillögu sem Vinstri Græn lögðu fram í upphafi þings 2005:
“(5. mál á 132. löggjafarþingi, þskj. 5.)
Með hliðsjón af mikilvægi þess að:
a. verðbólga náist sem fyrst niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans,
b. stöðugleiki haldist á vinnumarkaði og kaupmáttur launa verði varðveittur,
c. sjálfbær þróun verði leiðarljós í orku- og atvinnumálum og þróun þjóðlífsins almennt,
d. tryggja útflutnings- og samkeppnisgreinum viðunandi starfsskilyrði,
e. bæta skilyrði til nýsköpunar í atvinnulífinu og til uppbyggingar sprotafyrirtækja,
f. draga úr viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun,
g. viðhalda stöðugleika í fjármálakerfinu og halda aftur af skuldasöfnun heimilanna,
h. jafnvægi náist á nýjan leik í þjóðarbúskapnum almennt,
ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi aðgerða:
1. Gefa út formlega yfirlýsingu um að hvorki verði af hálfu opinberra aðila stuðlað að né veitt leyfi fyrir frekari stórvirkjunum né uppbyggingu meiri orkufrekrar stóriðju en þegar er í byggingu, a.m.k. til ársloka 2012. Áhersla verði þess í stað lögð á fjölbreytta smáa og meðalstóra iðnaðarkosti af viðráðanlegri stærð fyrir hagkerfið og aðstæður viðkomandi byggðarlaga.
2. Beina þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að hugað verði vandlega að áhættumati í bankakerfinu, svo sem hvað varðar áhrif af snöggri gengislækkun krónunnar eða lækkun fasteignaverðs. Markmiðið verði að hraður vöxtur útlána að undanförnu skapi ekki hættu fyrir efnahagslífið og farið verði yfir eiginfjárlágmörk og áhættugrunn fjármálastofnana í því ljósi.
3. Beina þeim tilmælum til Seðlabanka Íslands að íhuga vandlega að beita aukinni bindiskyldu hjá innlánsstofnunum, a.m.k. tímabundið, til að draga úr þenslu á peningamarkaði og huga að öðrum aðgerðum sem stutt geta viðleitni stjórnvalda til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001.
4. Yfirfara aðferðir við mælingar á þróun verðlags og athuga sérstaklega hvernig vænlegast sé að meta húsnæðiskostnað í vísitölu neysluverðs.
5. Tryggja aðhald í ríkisfjármálum og slá á þenslu með því að leggja fyrir Alþingi nú í haust árið 2005 tillögur um að falla frá eða fresta eftir atvikum a.m.k. hluta þeirra almennu skattalækkana sem lögfestar voru fram í tímann í desember 2004. Í staðinn komi aðgerðir til að bæta stöðu tekjulægstu hópa samfélagsins og barnafjölskyldna.
6. Efna til víðtæks samstarfs við aðila vinnumarkaðarins, samtök bænda, neytenda, öryrkja, og aldraðra, og aðra þá aðila sem efni standa til um aðgerðir þessar og þátttöku í að tryggja á nýjan leik efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.
Reynir (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 02:25
Ragnar þakka þér fyrir innleggið. Okkur er hollt að rifja upp hvað lagt hefur verið til málanna. Árið 2005 voru enn fyrir hendi möguleikar á að takast á við þann vanda sem var fyrir hendi og koma í veg fyrir að hrunið yrði jafn stórt og raunin varð. Þegar við kusum síðast, 2007, var það orðið of seint. Hins vegar fengu þessar tillögur því miður ekki stuðning, því varð skellurinn verri en hann hefði getað orðið.
Það kemur hins vegar ekki í stað þess að næstu vikurnar munu aðgerðir sem koma frá ríkisstjórn - sama hver skipar hana - frekar einkennast af því að afla vinsælda meðal kjósenda, fremur en taka óvinsælar ákvarðanir sem gætu gefið betri árangur.
Utanþingsstjórn verður að treysta á stuðning þingsins, þó svo hún sé ekki í leit að vinsældum. Slíkur stuðningur fæst ekki við óvinsælar aðgerðir.
Björn Bjarnason, 26.1.2009 kl. 19:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.