Vaxtalækkun i stað gjaldþrotaleiðar

Á RUV var frétt í gær eða fyrradag um að Færeyingar hefðu gengið í gegnum kreppu upp úr 1990.  Upphaf fréttarinnar er eftirfarandi:

"Fólkið er mikilvægasta eign hvers samfélags og þegar erfiðleikar steðja að þurfa stjórnvöld að sjá til þess með öllum ráðum að íbúarnir flýi ekki úr landi því þeir komi aldrei allir til baka segir Hermann Oskarsson hagstofustjóri Færeyja."

Það virðist vera að ráðamenn þjóðarinnar geri sér ekki grein fyrir að hinn raunverulegi auður liggur í fólkinu sem hér býr og þeirri menntun og reynslu sem það hefur aflað sér.  Þegar harðnar á dalnum er það fólkið sem á að taka skellinn. 

Fjármagnseigendur skulu ekki tapa krónu, allar aðgerðir miða að því að þeir haldi sínu með vöxtum og vaxtavöxtum.  Til að koma í veg fyrir að þeir verði fyrir tapi er veittur aukinn greiðslufrestur.  Það versta sem þeir geta lent í er að þurfa að afskrifa þau útlán sem þau hafa veitt.  Þannig eru það einkum hagsmunir þeirra að heimilin í landinu verði ekki gjaldþrota.  Þetta  er ekkert annað en gjaldþrotaleið, þ.e. ekki skal veita hjálp fyrr en gjaldþrot blasir við. 

Heildarútlán bankanna til viðskiptavina eru 1.826 milljarðar kr.  Í lok ágúst voru íbúðarlán um 580 milljarðar kr., í þeirri fjárhæð eru einnig útlán Íbúðarlánasjóðs og sparisjóðanna. En ef þetta eru eingöngu lán bankanna myndi 1% lækkun vaxta þýða að þeir myndu tapa 5,8 milljörðum á ári, eða 0,3% af heildarútlánum til viðskiptavina.  Í samanburði við eigið fé þeirra eru þetta 2,9% af eigin fé. Ef við gefum okkur að heildarútlán til viðskiptamanna beri 20% vexti, er þetta lækkun um 1,6% af heildartekjum.  Þessi fjárhæð er smáræði í samanburði við það tap sem þeir gætu orðið fyrir með gjaldþrotaleiðinni.

Heildareignir lífeyrissjóðanna eru 1.647 milljarðar kr.  Lífeyrissjóðirnir eru með ávöxtunarkröfu upp á 3,5%, en á sama tíma lána þeir sjóðsfélögum sínum fasteignatryggða lán með með 4,15% eða enn hærri vöxtum.  Hlutfall lána til sjóðsfélaga er ekki nema brot af heildareign sjóðanna, þ.a. lækkun á vöxtum um 1% til skamms tíma myndi sennilega lækka vaxtatekjur þeirra um 0,1-0,15%.

Heimilin í landinu skulda yfir 800 milljarða vegna íbúðakaupa og hafa meira en tvöfaldast á síðustu 5 árum.  Aðrar skuldir heimilanna hafa nær þrefaldast.  Á sama tíma hafa meðallaun hækkað um 50%.  Vextir eru því mikið stærri hluti af útgjöldum heimilanna í dag en var fyrir 5 árum.  Ef kaupmáttur launa verður aftur sá sami og hann var þá, blasir við að heimilin geta ekki staðið undir meira en tvöfalt hærri vaxtagjöldum.

Heimilin í landinu þurfa að fá meira í sinn hlut en eingöngu hjálp þegar allt er komið í kalda kol.  Aðgerðir sem stuðla að því að heimilin geti haldið áfram rekstri eru aðgerðir sem koma sér betur fyrir þjóðfélagið í heild.  Eðlilegur rekstur heimilanna stuðlar frekar að því að  halda hjólum  á atvinnulífsins í gangi.

 Vaxtalækkun til heimilanna dregur úr kreppunni, gjaldþrotaleið er bara til að auka hana.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband