15.11.2008 | 23:58
Lengt í hengingarólinni
Forystumenn stjórnarflokkanna gáfu okkur smá innsýn inn í hvernig þeir ætla að "bjarga" heimilunum.
Fólki svíður hvernig lánin sem það tók til að kaupa íbúðarhúsnæði hækka, á meða fasteignaverð lækkar. Þeir ætla að lengja í hengingaról íbúðarlánanna, þannig að nú skal ekki einu sinni greiða niður lánin, sennilega ekki einu sinni áfallna vexti. Þannig hækka lánin enn meira.
Ef þú missir húsið má íbúðalánasjóður leigja þér það.
Ríkið ætlar ekki að hirða af þér barnabætur og vaxtabætur ef þú skuldar því.
Endurgreiðsla á innflutningsgjöldum bifreiða sem seldar eru úr landi, koma sér sérstaklega vel fyrir almenning í landinu, enda stundar hann útflutning í stórum stíl.
Ríkið á að fara vægar í innheimtuaðgerðir á vanskilum opinberra gjalda, innheimtumenn fá meira að segja leyfi til að fella niður dráttarvexti.
Allar þessar aðgerðir eru til að bæta hag þeirra sem eru að komast í vanskil eða eru þegar komnir í vanskil. Það er skiljanlegt, það getur ekki verið hagur fyrir ríkissjóð að Íbúðalánasjóður safni að sér fasteignum sem þeir geta hvorki selt né leigt og verður því baggi á sjóðnum.
Lausnin á vandamálinu liggur ekki í því að bjarga fólki þegar það er komið í vanskil, nær væri að koma með lausnir sem koma í veg fyrir að fólk lendi í vanskilum. Miðað við þá lagasetningu sem farið hefur frá Alþingi sýnist mér að það væri t.d. hægt að setja lög upp á að vextir af lánum yrðu lækkaðir um 1%. Sú aðgerð myndi ekki kosta ríkissjóð neitt, nema lægri vaxtatekjur. Áhrifin á afborganir íbúðarkaupenda yrðu hins vegar meiri en áhrifin af því að tengja afborganir lána við launavísitölu.
Þegar verðtrygging var tekin upp fyrir tæpum þremur áratugum, þótti mjög gott að vextir væru 0,5-1%. Þá höfðu vextir verið neikvæðir í langan tíma og sparifé brann upp í verðbólgunni. Nú er samdráttur í þjóðfélaginu, allir verða að taka á sig tekjutap og auknar skuldir nema fjármagnseigendur. Stjórnvöld tryggja að þeir missi ekki spón úr aski sínum. Frekar er farin sú leið að fresta tekjum þeirra, en að láta þá missa þær.
Það er óskiljanlegt af hverju þeir eiga ekki að taka á sig hluta af byrðinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.11.2008 kl. 01:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.