9.11.2008 | 02:18
Eru lífeyrissjóðirnir baggi á verkalýðshreyfingunni?
Gunnar Páll formaður VR var að verja eignir lífeyrissjóðanna þegar hann samþykkti að fella niður ábyrgð stjórnenda Kaupþing á skuldum!
Gylfi formaður ASÍ getur ekki samþykkt að fella niður verðtryggingu vegna þess að þá tapa lífeyrissjóðirnir!
Það má ekki lækka vexti eða laga greiðslubirgði heimilanna vegna þess að þetta bitnar allt á lífeyrissjóðunum. Lífeyrissjóðirnir eru orðnir svo stórir að það er ógerningur fyrir venjulegan mann að átta sig á stærð þeirra.
En ef einungis tekjur þeirra af innborguðum iðgjöldum í sjóðina er skoðað, eru þær meiri en samanlagðar tekjur allra sveitarfélaga í landinu vegna útsvars. Hámark útsvar er 13,05%, iðgjald í almennan lífeyrissjóð er 12% af launum, þar til viðbótar koma 4-6% vegna séreignarsparnaðar.
Í árslok 2007 var heildareign Lífeyrissjóðs verslunarmanna tæpar 270 milljarðar kr. og voru innborguð iðgjöld 15,6 milljarðar og útborganir til lífeyrisþega 4,2 milljarðar. Heildareign lífeyrissjóðanna í heild nam samtals 1.647 milljörðum kr., þetta er fjárhæð sem nemur 5,2 millj. kr. á hver mannsbarn á Íslandi. Þessi eign skiptist á 31 lífeyrissjóð.
Lífeyrissjóðirnir hafa tapað mikið á skuldabréfum til bankanna og hlutabréfaeign í þeim sem samtals var 30% af heildareign um síðustu áramót. Óvíst er hvernig staðan er á erlendum verðbréfum sem námu um 30% af heildareign þeirra vegna gengislækkunar og lækkunar á hlutabréfamörkuðum, auk þess sem margir bankar hafa orðið gjaldþrota. 30% af eigninni eru vegna veðskuldabréfa til einstaklinga, sjóðsfélaga og annarra íbúðabréfa.
Veðlánin hækka og hækka, fólk á stöðugt erfiðara með að standa í skilum með afborganir og vexti. Ef áframhald verður á þessu verða vanskil þeirra við lífeyrissjóðina gífurleg, sem gæti leitt til þess að lánin fást ekki greidd og getur ekki leitt til neins annars en enn frekara taps sjóðanna.
Í stjórnum þessara lífeyrissjóða sitja forystumenn verkalýðshreyfingarinnar. Almenningur eru þeir aðilar sem forystumenn verkalýðshreyfingarinnar eiga að gæta hagsmuna fyrir. Eins og umræðan er í dag virðist sem þeir meti hagsmuni lífeyrissjóðanna meira en hagsmuni hins almenna launamanns. Almenningur verður að borga fyrir tap sjóðanna. Það eru ekki nema fimm ár síðan lífeyrissjóðirnir voru síðast með neikvæða ávöxtun, eða á árunum 2000-2003. Þá var það vegna hruns á hlutabréfamarkaði hér á landi. Það tap var örugglega ekki hinum almenna launþega að kenna. Það er jafnvel spurning hvort hagsmunir launþega í dag fari saman með framtíðarhagsmunum þeirra sem lífeyrisþega í framtíðinni.
Við skoðun á ársreikningi Lífeyrissjóðs verslunarmanna kemur ýmislegt athyglisver í ljós. Forstjórinn er með tæpar 30 millj.kr. í laun. Stjórnarlaun eru rúmar 10 millj. kr. sem skiptast á 9 stjórnarmenn. Samtals 40 millj.kr. Nokkuð drjúg laun fyrir að skila 1% ávöxtun á sama tíma og veðskuldabréfin báru 5-6% vexti.
Mér er bara spurn hverra hagsmuna eru þeir að gæta og eru þeir að skila svo góðum árangri að það réttlæti þessi ofurlaun?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.