18.10.2006 | 15:10
Sorpskrif
Í dag er ég í skapi til að nöldra yfir þjónustugjöldum sem á sífellt fleiri stöðum er verið að leggja á okkur. Þetta er víst til að þess að láta þá sem njóta þjónustunnar borga fyrir hana. En stundum er þetta samfélagsþjónusta sem fólk er í sjálfu sér ekki að njóta.
Eg varð alveg spólandi vitlaus um daginn, þegar ég fór með nokkra kassa af rusli í endurvinnslustöð Sorpu. Þá var nýbúið að taka upp gjald fyrir að losa sig við allt annað rusl en venjulegt heimilissorp. ( Hvað í ósköpunum sem það er ) Þarna hafði ég skotist á bílnum í skítagallanum með nokkrar spónaplötur sem ég hafði brotið í nógu litlar einingar til að koma í skottið á bílnum mínum, og kom þá í ljós að ég átti að borga 560 kr. fyrir að henda þeim. Ég hefði eflaust getað brotið þær í smærri búta og sett í ruslatunnuna heima, til að losna við þetta gjald. En það er ekki ástæðan fyrir nöldrinu heldur það að ég var sem betur fer nýbúinn að losa kjallarann hjá mér við ruslið sem þar var, og það var ekki smáræði, enda voru fyrri eigendur hússins búnir að safna því í 100 ár. Já húsið er 100 ára og höfðu fyrri eigendur ekki tæmt kjallarann hjá sér þegar þeir fluttu út.
Ef ég hefði verið að henda þessu rusli í dag hefði ég mátt punga út talsverðum peningum til að henda rusli sem fyrri eigendur höfðu "tekið til handargagns" eins og það hét þá. Eins og einhver góður maður orðaði það, "þetta er að vísu rusl en það er óþarfi að henda því strax". Þarna voru varahlutir af ýmsu tagi, tæki og tól sem höfðu bilað og var löngu hætt að nota, en hefði á sínum tíma mátt nýta í varahluti, eða til að smíða eitthað annað úr þeim. Magnið sem þarna hafði safnast á einni öld var slíkt að, ég hefði þurft að borga einhverja tugi þúsunda fyrir að farga þessu.
Og er ég sannfærður um þessi gjaldtaka af fólki sem þarf að losa sig við smávegis rusl vegna þess að það er að gera breytingar heima hjá sér verður til þess að einhver á eftir að finna þörf hjá sér að láta ruslið sitt frekar hverfa einhversstaðar úti í hrauni, móa eða sjónum, heldur en fara að borga fyrir að losa sig við það. Því þá gæti hann meira að segja sleppt því þá að flokka ruslið. Fyrir utan að Sorpu er lokað kl 7 á kvöldin, og bara opin sumstaðar um helgar.
Ég held að það væri nær að taka endurvinnslugjaldið af fólki þegar það kaupir vörurnar, því meira að segja byggingarefni kemur fyrr eða síðar til baka í endurvinnslu - ég veit það eftir að hafa átt 100 ára hús. Þetta er nú þegar byrjað, þar sem umbúðagjald er lagt á allar vörur sem framleiddar eru hér á landi og fluttar til landsins. Skilagjald er á plastumbúðum og bílum. Það á að vera hægur vandi að hafa bara almennt sorpeyðingargjald á allar seldar vörur. Hluta af gjaldinu mætti svo nota í holræsagjald til reksturs á skolphreinsistöðvunum, því ekki bíð ég í það þegar settir verða mælar á skolplagnirnar hjá okkur líka, til að auka kostnaðarvitund okkar á því sem frá okkur fer.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.