13.3.2007 | 21:34
Ísafjörður er ekki á Íslandi?
Það er ekki lengra frá Finnlandi til Íslands en Ísafirði Þessa setningu las ég í Fréttablaðinu í dag, nánar tiltekið í viðtali við Eirík Örn Norðdal, sem titlaður er sem rithöfundur og Nýhilisti í þessu viðtali. Þetta er ansi merkileg setning fyrir margra hluta sakir.
Eiríkur ísfirðingur að uppruna, alinn þar upp og hefur búið þar undanfarin ár eftir að hafa verið á flakki um heiminn um skeið. Það eitt að maður sem fæddur og alinn upp á Ísafirði geri sér grein fyrir að Ísafjörður er ekki á Íslandi er stórmerkilegt. Og þó. Hann veit, eins og er að Vestfirðir tilheyra ekki Íslandi, nema þegar kosið er til Alþingis og þegar skera þarf niður kostnað ríkisins vegna þenslu á Íslandi þó þessi þensla hafi aldrei náð til Vestfjarða og þar hafi vandamálið verið samdráttur í atvinnulífinu og fólksfækkun.
Helsta lausn stjórnmálamanna, og margra heimamanna hefur verið fólgin í því að lofa jarðgöngum og öðrum samgöngumannvirkjum og koma á háskólamenntun á svæðinu. Svo eiga störfin fyrir alla háskólaborgarana þá sérstaklega viðskiptafræðinga en flestir eru í því námi (í fjarnámi) að skapast af sjálfu sér, þegar þeir eru orðnir nógu margir. Þangað til geta þeir svarað í símann fyrir þau fyrirtæki og stofnanir sem bregðast við kallinu um að færa störf út á land, á meðan þau störf sem gera meiri kröfur til starfsmanna eru færð til Íslands.
Þetta var ekki misritun, því það þarf ekki annað en hlusta á útvarp til að heyra að Ísland nær ekki nema 100 km út fyrir Reykjavík.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.