19.3.2010 | 19:00
Verið að búa til vandamál
Indriði - sem er bæði fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og ríkisskattstjóri ætti að muna eftir vandamálinu sem fylgdi því síðast þegar skattafrádráttur var leyfður vegna viðhalds.
Stærsta vandamálið frá sjónarhóli skatteftirlitsins var að greina á milli viðhalds og endurbóta. Þannig taldis það viðhald ef maður skiptir um eldhúsinnréttingu í húsi sem hann hefur búið lengi, en endurbætur ef hann skipti um eldhúsinnréttingu í húsi sem hann var nýbúinn að kaupa.
Fleiri galla má nefna á þessari hugmynd. Þarna er verið að veita skattafslátt til þeirra sem hafa nægilega mikið fé aflögu til að geta sinnt viðhaldi eigna sinna. Þeir sem eru með eignir sínar skuldsettar upp í topp, eiga ekki fé aflögu til að sinna viðhaldi og vonlaust er fyrir þá að fá lánafyrirgreiðslu til að sinna því. Hagsmunasamtök heimilanna segja að 50% heimila sé með greiðslubyrgði sem er þeim ofviða. Það er því ljóst að þau heimili eru ekki að fara í viðhald. Skattahækkanir að undanförnu hafa einnig dregið verulega úr getu fólks til að sinna viðhaldi eigna sinna.
Þá dettur fjármálaráðherra snilldarráð í hug sem er alveg dæmigerð aðgerð fyrir þessa ríkisstjórn - hjálpa þeim sem ekki þurfa hjálp - hinir geta verið úti í kuldanum.
![]() |
Viðhaldsvinna frádráttarbær |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er einn punktur í þessu sem ber að hrósa. Þau sýna lit í að koma byggingariðnaði betur af stað aftur.
Carl Jóhann Granz, 19.3.2010 kl. 19:05
Það er rétt byggingariðnaðurinn þarf á slíku innskoti að halda, en allar þær skattahækkanir sem búið er að leggja á - hafa dregið verulega úr getu fólks til að kaupa þjónustu iðnaðarmanna.
Margt af því fólki sem keypt hefur sér íbúð síðastliðin 4 - 5 ár. er í yfirveðsettum eignum, og hefur því miður ekki fjárhagslegt svigrúm til að viðhalda eignunum.
Þess vegna finnst mér eins og þessi aðgerð sé einungis til að verðlauna þá sem enn hafa fjárhagslegt svigrúm til að kaupa þessa þjónustu. Hinir fá bara að borga hærri skatta. Það má meira að segja ganga svo langt að segja að þeir séu að niðurgreiða viðhaldið fyrir þá.
Björn Bjarnason, 19.3.2010 kl. 19:17
Það er óhætt að segja það. Ekki sérlega réttlát lausn þó viðleitni í rétta átt sé um að ræða.
Leiðréttingar vegna forsendubrestsins hefði skilað meiru fyrir alla.
Carl Jóhann Granz, 19.3.2010 kl. 19:56
Menntamálaráðherra hér áður fyrr
Krímer (IP-tala skráð) 19.3.2010 kl. 21:25
Já það er rétt hjá þér að það verða bara þeir sem hafa hvort sem er efni á því að láta vinna fyrir sig viðhaldsvinnu sem koma til með að geta nýtt sér þetta, því það er ekki nóg með að meginhluti heimila skuldi verulega umfram eignir og greiðslugetur heldur á að skattleggja þá sem hugsanlega fá einhverjar lækkanir á heildarskuldum sínum og þá verður varla mikið eftir til að greiða iðnaðarmönnum.
Að öðru leiti er þetta á vissan hátt jákvætt en að sama skapi verið að flækja skattkerfið enn meira enda gjörsamlega elskar Indriði H að fá að flækja það sem mest.
Jón Óskarsson, 20.3.2010 kl. 00:11
Það er 200.000 fyrir einstaklinga en einungis 300.000 fyrir hjón, afhverju í ósköpunum er það ekki 400.000 fyrir hjón.....það verður s.s hagstæðara að skrá sig úr sambúð á meðan viðhaldi stendur!! Ótrúlegt.
Gylfi Pétursson (IP-tala skráð) 20.3.2010 kl. 01:12
Ég skal segja þér það Gylfi.
Norræna velferðarstjórnin með jafnan hlut kvenna og karla í ríkisstjórn hefur unnið mest allra ríkisstjórna undanfarinna áratuga gegn annars vegar jafnrétti kynjanna þegar kemur að skattamálum sem og hjóna/sambýlisfólks v.s. einstaklinga.
Dæmi: Þriggja þrepa skattkerfið mismunar fólki og tekjuhærri aðilinn hjá samsköttuðum einstaklingum fær ekki að nýta vannýtt lægri skattþrep hins aðilans að fullu þannig að báðir aðilar borgi sama skatt.
Dæmi2: Auðlegðarskatturinn skapar enn frekari aðstæður útrásarvíkinga og annarra hrunaðila til þess að skrá eignir í sitthvoru lagi, því viðmiðunin þar er 90 milljónir á einstakling en 120 milljónir á samskattaða aðila þannig að það þýðir að fólk telur einfaldlega fram í sitthvoru lagi sé það á þessum eignamörkum.
Dæmi3: Væntanlegur frádráttur vegna endurbóta er auðvitað í sama stíl og framangreind dæmi. Þetta eru bara vinnubrögð vinstri manna þegar þeir eru að skipta sér af skattkerfinu.
Einföldu staðgreiðslukerfi skatta var umhugsunarlítið kastað fyrir flókið margra þrepakerfi til þess eins að ná í 10 milljarða aukalega í skatttekjur. Þriggja þrepa kerfið veldur síðan allskonar vandamálum þegar kemur að annarri skattlagningu eins og snilldarhugmyndinni um að breyta langtímalánum í skammtímaskattaskuldir.
Fjölmörg önnur dæmi er hægt að nefna og ef þú setur þig inn í skattalögin fyrir og eftir breytingar þá sjást þar mörg dæmi.
Jón Óskarsson, 20.3.2010 kl. 01:23
Mér finnst dálítið merkilegt að það skuli verða að vandamáli hjá þér að þeir sem eiga smá pening geti notað þá til viðhalds og fái hvata til þess með skattaívilnun.
Þeir sem hefðu ekki farið í nokkrar endurbætur á húsnæði sínu fara kannski einmitt í það vihald vegna þessara aðgerða. Til hagsbóta fyrir þá sem vinna að þessum verkum.
Af hverju þarf alltaf að draga fram það neikvæða sem gæti gerst? Af hverju ekki að draga fram það jákvæða sem gæti gerst?
Kveðja, Valdimar
Valdimar Másson (IP-tala skráð) 20.3.2010 kl. 13:15
Gylfi, það er alveg rétt að þetta er ekki sanngjarnt, en það ÆTTI að vera á hinn veginn. Einstaklingur sem er að reyna að gera við sitt á EINFÖLDUM tekjum ætti að fá meira en pör sem hafa tvöfaldar tekjur. En það réttlátasta væri bara það sama fyrir alla, ákveðin prósenta af kostnaðinum.
Heiðrún Sveinsdóttir (IP-tala skráð) 20.3.2010 kl. 15:03
Stundum er það þannig að eignarhald að íbúð og að ég tali nú ekki um sumarbústað er á höndum fleiri en annað hvort einstaklings eða hjóna. Stundum tveggja einstaklinga sem ekki eru samskattaðir, eða í eigu fleiri aðila svo sem skyldmenna eða annarra. Hvernig á að fara með slíkt ?
Upp kemur mismunun á fasteign sem er í eigu 2 einstaklinga miðað við fasteign í eigu samskattaðra tveggja einstaklinga.
Það er því nóg af vandamálum og jafnræði er aldrei nema að sama gangi yfir alla.
Ég ítreka að þessi stjórn með sínum skattalagabreytingum er aftur og aftur að mismuna hjónum/samsköttuðum einstaklingum og ég leyfi mér að ítreka að þetta beinist "gegn" konum og ég skil ekki af hverju þær eru ekki duglegri að andmæla þessum skattalagabreytingum. Ætli það sé af því að meirihluti stuðningsmanna núverandi ríkisstjórnar eru konur og þess vegna sé allt í lagi að láta valta yfir sig ?
Jón Óskarsson, 20.3.2010 kl. 16:50
Það er rétt sem kemur fram hjá málshefjanda að þetta er einn liðurinn af mörgum hjá þessari ríkistjórn til að flækja skattkefið.
Því verður hinsvegar ekki neitað að þett er atvinnuskapandi, ekki bara hjá iðnaðarmönnum heldur einnig endurskoðendum, lögfræðingum og opinberum starfsmönnum.
Hvað þarftu að hafa búið lengi í íbúiðnni til að endurnýjun á eldhúsi sé viðhald en ekki endurbætur? Hvað ef eldhúsinnréttingin er nánast ný en mér bara líkar hún ekki?
Ofangreindar spurningar geta skapað vinnu fyrir hundruð þúsunda hjá lögfræðingum og endurskoðendum þannig að ríkið fær þennan afslátt margfallt til baka.
Þetta er náttúrurlega tær snilld eins og allar hinar skattaflækjurnar hans Steingríms. Skattabreytingin um áramótin kostaði hundruði milljóna ef ekki milljarð hjá smáfyrirtækum um allt land og var verulega atvinnuskapandi hjá hugbúnaðarfyrirtækjum. Verst að þessi smáfyrirtæki lifðu þessar breytingar ekki öll af en hver er að væla yfir því.
Þetta gefur líka útsjónarsömum mönnum stór aukna möguleika á að finna glufur í skattkerfinu. Þær standa í réttu hlutfalli við flækjustigið. Þannig geta örugglega færir menn komið sér hjá að borga skatta sem annars hefði orðiðað greiða.
Landfari, 20.3.2010 kl. 18:28
Nokkrir aðilar hér að framan hafa fjallað um ósanngirni þess að hjón fái ekki tvöfalt meiri frádrátt en einstaklingur, satt best að segja hefur mér fundist skattkerfið oft á tíðum vera óhagstætt fyrir hjón. Hins vegar í þessu máli finnst mér réttlátast að fjárhæð frádráttar ætti að miðast við íbúð, ekki fjölda skattgreiðenda. Þessi aðferðafræði gæti leitt til þess að ef fjórir einstaklingar eiga íbúð saman og fara í viðhald, geta þeir fengið 800.000 frádráttarbær. En þetta er bara útúrdúr.
Sanngirni þess að hvetja fólk til þess að fara í viðhald með þessum hætti finnst mér ekki vera fyrir hendi. Þeir sem hafa efni á því að viðhalda íbúðum sínum og hafa einhverja tilfinningu fyrir fjármálum, þurfa ekki skattafslátt til að átta sig á að núna er besti tíminn til að fara í slikar framkvæmdir. Iðnaðarmenn og verktakar borga nánast með verkefnum sem þeir fá, til þess að geta haft einhverjar tekjur. Það er meðal annars til þess að missa ekki frá sér þá þekkingu sem fólgin er í þeim starfmönnum sem hjá þeim vinna.
Mér þykir góður punkturinn sem fram kemur hjá Landfara að breytingar af þessu tagi séu atvinnuskapandi hjá lögfræðingum og endurskoðendum. Sérstaklega í ljósi þess að þeir þurfa að fletta upp úrskurðum og dómum vegna samsvarandi mála frá því að skattafsláttur vegna viðhalds var síðast frádráttarbær, sem var áður en staðgreiðsla skatta var tekin upp 1987.
Íbúðalánasjóður veitir lán vegna endurbóta á íbúðarhúsnæði, en ekki vegna viðhalds, svo þar er mikil reynsla fyrir hendi í hvernig túlka á muninn á þessu tvennu.
Björn Bjarnason, 20.3.2010 kl. 21:05
Skattabreytingar núverandi fjármálaráðherra eru því miðar flestar þannig að verið er að fara í kerfi sem var í gangi áður en staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp. Fyrir þann tíma voru allskyns vandamál í gangi og skattkerfið komið í algjöra flækju. Það var því mikil og almenn sátt um það meðal stjórnmálamanna, atvinnulífsins og samtaka launþega á sínum tíma að skipta um kerfi og fara í staðgreiðslukerfi skatta og einfalda skattkerfið allt til mikilla muna.
Staðgreiðslukerfið sem slíkt hefur reynst vel í yfir 20 ár en nú var því rústað á einu bretti með lagabreytingum fyrir lok síðasta árs. Þessi hugmynd sem hér hefur verið fjallað um sem og hugmyndir um húsnæðisbætur eru ekki nýjar hugmyndir heldur verið að fara í gamla farið frá því fyrir 24 árum. Það er mikil afturför og kallar bara á vandræði.
Sammála þér Björn með að svona endurbætur má ekki binda við einstaklinga því eins og við báðir höfum bent á þá getur eignarhaldið verið með þeim hætti að þá væri verið að greiða margfalt vegna einnar íbúðar miðað við aðrar sambærilegar.
Breyting sem gerð var í fyrra á endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts að vinnu við endurbætur og viðhald ásamt meiri útvíkkun á því af hvaða vinnu vsk fengist endurgreiddur var af hinu góða og ástæða til að framlengja. Slíkt skilar meiru en hugmyndir um gera hluta af vinnu frádráttarbæra.
Jón Óskarsson, 21.3.2010 kl. 00:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.