Ábyrgð - eitthvað sem þú færð greitt er fyrir - aðrir mega axla hana

Hún er skrýtin tík, þessi pólitík.  Tryggðin við "Flokkinn" er meiri en tryggðin við þjóðina.  Það er verri glæpur að tala illa um flokksystkini sín en selja þjóðina í ánauð.  Þetta var það sem mér datt fyrst í hug, þegar ég heyrði af því að Bjarni Harðarson hefði sagt af sér þingmennsku. 

Vonandi er hann að leggja línurnar með að gerðum fylgi ábyrgð. Hann er að flytja okkur þau skilaboð  að ábyrgð sé ekki bara eitthvað sem greitt er fyrir þegar vel gengur, heldur að menn skulu standa og falla með ákvörðunum sínum og gjörðum eða aðgerðaleysi.   Hann er meiri maður fyrir að hafa axlað sína ábyrgð.

Fleiri mættu fara að fordæmi Bjarna.  Sumir menn virðast hafa komist upp með að skuldsetja þjóðina svo mikið að úr því virðist ekki verða leyst.  Aðrir hafa gasprað ógætileg orð í fréttaþáttum, sem spiluð hafa verið um allan heim, og hafa leitt til þess að Bretar virkjuðu lög um hryðjuverk gagnvart íslendingum og hafa gert menn að óábyrgum aðilum.  Ef þetta hefði verið einhver Jón eða Gunna hefðu þessi orð ekki skipt máli, en seðlabankastjóri verður að gæta orða sinna og ætti að hafa vit á því eftir að hafa verið forsætisráðherra í meira en 10 ár.  Svo reynsluleysi var ekki um að kenna.  Bankastjórarnir fengu greitt ríflega fyrir sína ábyrgð, en það virðist ekki einu sinni vera komin í gang rannsókn á hvort þeir hafi stýrt fyrirtækjum sem hafi farið út fyrir lögin.

Úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar virðist vera algjört, en aðgerðarpakki hennar er ennþá leyndarmál, vegna þess að það er kannski búið að sækja um lán hjá IMF.  Stendur þjóðin því í óvissu með hvort og hverju má eiga von á á komandi árum.  Er einhver sem hefur tekið að sér að axla ábyrgð á þeim seinagangi sem virðist vera á afgreiðslu lánsins?  Eða er getuleysið slíkt að menn geta ekki einu sinni axlað ábyrgð á sjálfum sér og sýnt sóma sinn í að hleypa öðrum að stjórnborðinu. 

Ríkisstjórnin er að falla á tíma, þolinmæði þjóðarinnar er að þrotum komin og sú reiði sem menn fengu nasasjón af síðasta laugardag verður meiri með hverjum deginum sem líður án þess að nokkuð bóli á aðgerðum.  Þær skýringar að menn viti ekki hvað það er sem er að tefja málið eru illskiljanlegar og bera þess merki að það virðist ekki vera reynt að fylgja málinu eftir. 

Leyndin er slík að ekki einu sinni þingið fær að vita hvað er í gangi.  30. mars 1949 brutust út óeirðir á Austurvelli eftir slíkt leynimakk, þegar á Alþingi var ákvað að Ísland gengi í NATO.  Nú eru rúm 76 ár frá "Gúttóslagnum" sem var 9. nóvember 1932, en þá ákvað bæjarstjórnin í Reykjavík að lækka laun verkamanna í atvinnubótavinnunni í miðri kreppunni.  Í dag er farið að krauma verulega í fólki, með sama áframhaldi þarf líklega ekki nema lítinn neista til að upp úr sjóði.  Þá er ekki ólíklegt að þriðji bardagi lögreglu og almennings verði þarna við Alþingishúsið.

Almenningur vill fá svör og aðgerðir, óvissan er versti óvinurinn, hún veldur ótta og reiði.  Það er kominn tími til að gefa upp meira um áætlanir bæði aðgerðir og tímasetningar.


mbl.is Engar útskýringar á frestun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Hey, ef nógu margir fara á hausinn út af þessu getur verið að þú fáir gúttóslag.

Ég veit ekki hvað plottið er, en í framkvæmd lítur út fyrir að það sé að setja alla á hausinn.  Hvort sem það er af illsku eða heimsku, þá er það ekkert gott.

Ásgrímur Hartmannsson, 12.11.2008 kl. 12:48

2 Smámynd: Björn Bjarnason

Ég óska ekki eftir gúttóslag -  en hann væri sennilega fengur fyrir nafna minn sem er að efla lögregluna

Björn Bjarnason, 12.11.2008 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband