Ekki fleiri álver - kvóti í ferðaþjónsustu

Ég hef ekkert á móti stóriðju - og tel mig ekki vera náttúruverndarsinna - en af efnahagslegum ástæðum fyrir þjóðarbúið frábið ég mér að fjölga álverum.  Nú þegar er útflutningur á áli 40% af heildarútflutningi á vöru frá Íslandi, fiskútflutningur 40%, og restin vegna útflutnings á öðrum vörum.

Við eru nú þegar orðin of háð verði á áli, tekjur af orkusölu eru háðar álverði.  Við þurfum meiri fjölbreytni í útflutninginn.  Iðnfyrirtæki sem er aðeins með tvær vörutegundir, þykir ekki byggja á traustum grunni, þess vegna fara þau í vöruþróun svo þau geti fjölgað vörutegundunum.  Það er einmitt það sem við verðum að gera líka. 

Þess vegna ættu stjórnvöld að greiða fyrir þeim aðilum sem vilja koma með annarsskonar starfsemi til landsins.  Ein hugmynd sem hefur verið uppi á borðinu er netþjónabú, önnur er olíuhreinsunarstöð og þær eru margar fleiri.   Við mat á þessum kostum þurfum við að hafa þá samninga sem við höfum gert til hliðsjónar, eins og um mengun, sem og arðsemi fyrir viðkomandi grein og þjóðarbúið í heild.

Séu það náttúruverndarsjónarmið sem verða ofaná og við viljum efla ferðaþjónustuna, þá getur það leitt til þess að ágangur ferðamanna á viðkvæm svæði verður of mikill. Okkar helstu ferðamannastaðir þola ekki mikinn ágang.  Gróður á Íslandi er mjög viðkvæmur fyrir öllum ágangi, þannig get ég séð það fyrir mér að með óheftum ágangi ferðamanna verði helstu staðir orðnir að drullusvaði á stuttum tíma, eða það þurfi að byggja mannvirki til að verja þau.  Til að sporna við því hefur þeirri hugmynd skotið upp í kollinum á mér að það þyrfti að setja takmörkun á fjölda ferðamanna.  Það er líka hægt að takmarka aðgang með því að láta greiða aðgang að þeim og jafnvel banna aðgang á tímum þegar svæðin eru viðkvæm.  Einnig væri hægt að setja kvóta, ekki ósvipaðan fiskveiðikvótanum, þar sem t.d. væri heildarfjöldi ferðamanna á Hornströndum takmarkaður við 5.000 manns á tímabilinu maí-ágúst, sem síðan væri seldur hæstbjóðanda.  Kvótinn fundinn með því að hæfir menn myndu meta hvað viðkomandi svæði þyldi mikinn ágang.  Með þessu móti væri hægt að ná meiri hagkvæmni út úr ferðaþjónustunni, þar sem uppbyggingin væri í samræmi við fjölda gesta.

Þetta er sett fram sem hugmyndir, þar sem ég á eftir að vega kosti þeirra og galla.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband