Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

"Pabbi, er komin kreppa?"

Sonur minn spurði mig í gær, "Pabbi, er komin kreppa?"

Hann er orðinn nógu gamall til að hafa lært í skólanum um Heimskreppuna á fjórða áratug síðustu aldar, og var hræddur um að við værum að missa íbúðina og myndum ekki eiga fyrir mat.

Ég sagði honum eins og er, að það væri ekki enn komin kreppan nema í fjármálaheiminum. Ég sagði honum að kreppa væri það ástand þegar fólk gæti gert minna í dag, en það gat leyft sér í gær og því fylgi líka vöruskortur í búðunum.

Fyrstu áþreifanlegu merkin eru þau að fólk geti ekki leyft sér að gera eða kaupa sömu hluti og það hefur leyft sér áður.  Þar sem kreppa einkenndist af skorti á nauðsynjum og að fólk hefur minni pening til að kaupa fyrir.  Við gætum ennþá keypt að mestu það sama og við höfum getað leyft okkur á undanförnu. 

Hann var samt ekki sáttur við skýringar mínar og hræddur um að ef kreppa kæmi myndum við missa heimili og ekki eiga mat.  Þá sagði ég honum að í dag værum við rík þjóð, og það þyrfti miklar breytingar til að kreppan næði svo langt, en í gamla daga vorum við fátæk, og þá þurfti ekki eins mikinn samdrátt til að verða svo fátækur að fólk átti ekki fyrir mat.

Þessar hugleiðingar eru aðallega settar fram vegna þess að þessi mikla umræða er farin að valda ótta hjá öllum.  Samt gerir enginn sér almennilega grein fyrir hvernig ástandið er. 


Dansinn í Hruna

Í umræðunni undanfarið rifjast upp fyrir mér þessi gamla þjósaga:

 

Einu sinni til forna var prestur í Hruna í Árnessýslu, sem mjög var gefinn fyrir skemmtanir og gleðskap. Það var ávallt vani þessa prests, þegar fólkið var komið til kirkju á jólanóttina, að hann embættaði ekki fyrri part næturinnar, heldur hafði dansferð mikla í kirkjunni með sóknarfólkinu, drykkju og spil og aðrar ósæmilegar skemmtanir langt fram á nótt. Presturinn átti gamla móður, sem Una hét; henni var mjög á móti skapi þetta athæfi sonar síns og fann oft að því við hann. En hann hirti ekkert um það og hélt teknum hætti í mörg ár. Eina jólanótt var prestur lengur að þessum dansleik en venja var; fór þá móðir hans, sem bæði var forspá og skyggn, út í kirkju og bað son sinn hætta leiknum og taka til messu. En prestur segir, að enn sé nægur tími til þess, og segir: "Einn hring enn, móðir mín." Móðir hans fór svo inn aftur úr kirkjunni. Þetta gengur í þrjár reisur, að Una fer út til sonar síns og biður hann að gá að guði og hætta heldur við svo búið en verr búið. En hann svarar ávallt hinu sama og fyrri. En þegar hún gengur fram kirkjugólfið frá syni sínum í þriðja sinn, heyrir hún, að þetta er kveðið, og nam vísuna:
"Hátt lætur í Hruna;
hirðar þangað bruna;
svo skal dansinn duna,
að drengir mega það muna.
Enn er hún Una,
og enn er hún Una."

Þegar Una kemur út úr kirkjunni, sér hún mann fyrir utan dyrnar; hún þekkti hann ekki, en illa leist henni á hann og þótti víst, að hann hefði kveðið vísuna. Unu brá mjög illa við þetta allt saman og þykist nú sjá, að hér muni komið í óefni og þetta muni vera djöfullinn sjálfur. Tekur hún þá reiðhest sonar síns og ríður í skyndi til næsta prests, biður hann koma og reyna að ráða bót á þessu vandkvæði og frelsa son sinn úr þeirri hættu, sem honum sé búin. Prestur sá fer þegar með henni og hefur með sér marga menn, því tíðafólk var ekki farið frá honum. En þegar þeir koma að Hruna, var kirkjan og kirkjugarðurinn sokkinn með fólkinu í, en þeir heyrðu ýlfur og gaul niðri í jörðinni. Enn sjást rök til þess, að hús hafi staðið uppi á Hrunanum, en svo heitir hæð ein, er bærinn dregur nafn af, sem stendur undir henni. En eftir þetta segir sagan, að kirkjan hafi verið flutt niður fyrir Hrunann, þangað sem hún er nú, enda er

Það er eitthvað við þessa sögu sem minnir mig á það sem er búið að vera að gerast í bankageiranum um allan heim.  Eg held að það séu bara þeir sem tóku þátt í dansinum sem sökkva.  En hinur þurfa að hreinsa upp og byggja upp á nýtt.

sagt, að aldrei hafi verið dansað síðan á jólanóttina í Hrunakirkju.


Efnahagsmálin - kreppa eða þurrð

Það er kanski tilvalið að halda áfram að tala um gengi krónunnar, nú þegar liðnir eru nærri 18 mánuðir frá síðustu færslu.

Gengið hefur á undanförnum mánuðum fallið gífurlega, fall er kanski of vægt orð, hrapað væri nær lagi þar sem gengisvísitalan er komin upp fyrir 200.  Gengisvísitalan var búin að vera að rokka á milli 110-120 í nokkur ár, sem var reyndar of hátt gengi.  En við þetta hrap er það komið langt niður fyrir það sem eðlilegt getur talist.

Það stefnir allt í almenna kreppu, en hún er ekki ennþá skollin á,  ástandið núna er meira líkt því að stytt hafi upp eftir að úrhellisrigningu, sem leitt hefur af sér flóð, þar sem fjármagni hefur rignt yfir heiminn.  Bankarnir eru eins og dælumenn sem hafa verið að dæla þessu flóði.  Og nú þegar styttir upp hættir vatnið að streyma og flóðið sjatnar.  Þá er staðan einfaldlega orðin þannig að það er ekkert vatn eftir til að dæla.  Kreppan kemur því aðeins að það komi ekki meira vatn (lausafjármagn) þá kemur þurrkatíð, en kreppu má líkja við þurrka, þeir eru góðir í hófi, en vatn er undirstaða þess að líf þrífist.  Fjármagn er undirstaða þess að eðlilegt viðskiptalíf þrífist.

Menn horfa með skelfingu á að hlutabréfavísitalan sé komin niður fyrir 4.000 stig, ef ég man rétt var hún rétt í kringum 1.000 á árinu 2001.  Með lauslegum útreikningi fann ég það út að ávöxtun á hlutabréfum í sömu körfu og vísitalan hafi verið rétt í kringum 16% á ári síðustu 7 árin, sem þótti alls ekki svo slæm ávöxun þegar ég var í skóla fyrir 20 árum og þykir kannski enn.

Að lokum ætla ég að fara nokkrum orðum um peningamálastefnuna og vaxtastig.  Sumir segja að í ljósi atburða undanfarinna daga sé hún gjaldþrota.  Þar get ég ekki verið annað en ósammála, hún er loksins farin að virka, nú þegar flóð af fjármagni erlendis frá er sjatnað.  Síðastliðin 7 ár hefur Seðlabankinn reynt að stýra verðbólgunni með vöxtum, en áhrifin hafa verið svipuð og ætla að stýra lónhæðinni við Kárahnjúka með því að moka úr því með matskeið.  Núna eru áhrifin af því að eyða mikið meiru en aflað var, og fjármagna það með erlendum lántökum að koma fram.  Gallinn á kerfinu var ekki stefnan heldur þau tæki og tól sem notuð voru til að stýra með.  Ég heyrði í fréttunum að einhver spekingurinn hjá Bloomberg hefði sagt að það þyrfti að hækka stýrivextina meira og ég er satt best að segja á sömu skoðun, þar sem þeir ná varla verbólgustiginu í landinu eins og það er núna.  Það er engum til góðs að stýrivextir séu lægri en verðbólgan.

Til að vaxtahækkanir Seðlabankans hefðu meiri áhrif hefi hann þurft að kaupa gjaldeyri á þessum tíma, það hefði dregið úr innflutningi og þar af leiðandi dregið úr viðskiptahallanum.  Áhrifin á neysluna hefðu verið þau að kaupmátturinn hefði verið minni sem hefði leitt til minni þennslu.   Það er gott að vera vitur eftir á - því ef þetta hefði verið gert væri gjaldeyrisforði landsins slíkur að krónan hefði ekki fallið, jafnvel styrkst í lausafjárkreppunni.  Ég veit að vísu ekki hvort hann átti peninga til að kaupa gjaldeyri á þessum tíma.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband