Fólk er orðið að aumingjum sem nennir ekki að vinna

Þessi umræða átti sér stað á kaffistofu fyrir nokkrum árum á vinnustað þar sem ég var.  Einn samstarfsmaður minn hafði tekið eftir því að sífellt fleira fólk hafði farið af almennum vinnumarkaði og á örorkubætur.  Hann hafði komist að þeirri niðurstöðu að þetta fólk væri upp til hópa letingjar sem hefði kosið það sjálft að hætta að vinna og vera heima á bótum.

Honum var bent á að málið væri ekki svona einfalt.  Það þyrfti ekki að skoða nema nokkur ár aftur í tímann, þá hefði stór hluti þessara einstaklinga verið á vinnumarkaði þó svo afköstin væru ekki eins mikil og hjá fullfrísku fólki.  Þetta var á þeim tíma sem fyrirtækin voru enn í eigu heimamanna og eigendur þeirra þurftu að mæta þessu fólki á götu.  Krafan um hagnað var ekki allsráðandi, það hafði ekki síður áhrif á eigendurna að þeir gátu veitt samborgurum sínum vinnu og lífsafkomu. Þeir þurftu að búa í sama samfélagi og aðrir.  Áður en frjálshyggju kapítalisminn varð allsráðandi voru atvinnutækin enn í eigu heimamanna.  Á þessum tíma sýndu fyrirtækin samfélagslega ábyrgð, enda þurftu þau að lifa í sama samfélagi og aðrir borarar.

Þegar eignarhald fyrirtækjanna fjarlægðist samfélagið þar sem þau störfuðu, gerðu eigendurnir meiri kröfur um arð.  Með kröfunni um meiri framlegð og meiri arð, varð að losa sig við þá hluta starfseminnar sem skilaði ekki arði og var jafnvel baggi á fyrirtækinu.  Þeir starfsmenn sem skiluðu ekki fullum afköstum gátu því tekið pokann sinn.  Þeir gátu ekki fengið vinnu annars staðar svo þeir urðu að leita á náðir hins opinbera og lífeyrissjóðanna.  Eigendunum stóð alveg á sama, þar sem þeir þurftu ekki að eiga á hættu að mæta þeim á götu.  Þegar á bótakerfið var komið, var ekki svo auðvelt að snúa aftur á vinnumarkaðinn, því allar launatekjur leiddu og leiða sennilega enn til skerðingar á bótum.  Þannig að ef þú getur ekki skilað fullum afköstum skaltu bara halda þig heima.

Fyrir nokkrum áratugum skiluðu fyrirtæki ekki miklum arði til eigenda sinna, en skiluðu miklu til samfélagsins, m.a. með því að veita fólki vinnu sem annars hefði verið á framfæri hins opinbera og stuðla að uppbyggingar í sínu samfélagi, með þeim margföldunaráhrifum sem því fylgdi.  Skattlagning þeirra var með þeim hætti að það borgaði sig ekki að skila hagnaði, frekar var ráðist í fjárfestingar sem skiluðu þeim litlum sem engum arði en skapaði vinnu í samfélaginu við uppbygginguna.  Í dag er skattlagning á hagnað hófleg, og hávær krafa um að lækka hana.  Skattlagning á arð er mjög lág 10% og er greidd út til eigendanna, sem oftar en ekki búa annars staðar en í því sveitarfélagi sem fyrirtækin starfa.  

 Sveitarfélögin fá ekki hlutdeild í skattlagningu á hagnað fyrirtækjanna, ekki hlutdeild í fjármagnstekjuskattinum af arðinum en sitja uppi með fólkið sem ekki skilar fullum afköstum á félagslegum bótum og fjárfesting í sveitarfélögunum hefur minnkað verulega.  Þetta frjálsa flæði fjármagns og aukin krafa um arð, ásamt því að eignarhald atvinnutækja hefur færst úr höndum heimamanna, hefur leitt til þess að hagur sveitarfélaga hefur minnkað þar sem fjármagnið sem þau skila hefur farið annað, jafnvel úr landi.

Þessu þarf að breyta, það verður að byggja starfumhverfi fyrirtækja þannig upp að það borgi sig fyrir eigendur þeirra skilja fjármagnið eftir þar sem það er upprunnið í stað þess að flytja það burt.

Það þarf jafnvel líka að veita sveitarfélögunum hlut í fjármagnstekjuskattinum, en þegar hann var tekinn upp færðu mjög margir rekstraraðilar starfsemi sína úr einkarekstri í hlutafélög.  Við þá aðgerð hættu sveitarfélögin að fá útsvar af hagnaðinum, en ríkið hlutur ríkisins lækkaði úr 24% í 18%, auk þess sem það fékk 10% af útgreiddum arði.   Skattlagningu hlutafélaga þarf því líka að breyta þannig að sveitarfélögin fái bæði hlutdeild í skattlagningu hagnaðar og útgreidds arðs.

Til að byggja upp þarf að skilja sem mest af hagnaði sem myndast af starfsemi fyrirtækja eftir heima í héraði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband