Á að byggja eða breyta?

Það þarf nýtt blóð í stjórnmálin.  Nýir vendir sópa best, þess vegna gætu fersk öfl sem eru ekki bundin á klafa flokkseigendafélaga frekar hreinsað til í kerfinu - heldur en gömlu flokkarnir sem eru meira og minna búnir að skipa "sína menn" í valdastöður út um allt.  Nú erum við aftur búin að fá pólitískt skipuð bankaráð í nýju ríkisbankana.  En það þarf að fara sér hægt í því að hreinsa til.  Einkavæðing bankanna leiddi það t.d. af sér að þar var hreinsað til, gamlir og vanir bankamenn fengu að fjúka - af því þeir vildu halda i traust bankakerfi á kostnað hagnaðar.  Ungu drengirnir sáu ofsjónum yfir því að bankarnir ættu peninga sem ekki væru á fullu í hámarksávöxtum með tilheyrandi áhættu.  Þeir létu því reynslumikla menn fjúka og lögðu halda á þetta "lata fjármagn".  Það vita allir hvernig sá leikur fór. 

Það er staðreynd að það þarf að stokka upp í kerfinu.  Gamla stjórnskipulagið er úr sér gengið, völdin eru komin í hendur manna sem setið hafa of lengi í sínum embættum í kerfi sem er gengið sér til húðar.  Of mikið vald er komið í hendur framkvæmdavaldsins á kostnað löggjafarvalds og dómsvalds. 

Það er hins vegar vandasamt verk að gera þær breytingar sem þarf.  Þær mega ekki vera unnar í fljótfærni og það þarf að vanda vel til verka.  Til að byrja með mætti færa allar stefnumótandi einingar ráðuneytanna undir hatt Alþingis.  Ég er ekki lögfróðum maður, en ég tel varla nauðsyn á að gera stjórnarskrárbreytingu til að gera slíkt.  Þær einingar sem ég er að tala um eru þær sem sjá um að útbúa lagafrumvörp þar með talið tillögur til fjárlaga.  Fagleg stjórn yrði áfram í höndum ráðuneyta.  Þess verður samt að gæta að henda ekki út þeirri þekkingu sem skapast hefur, það getur verið dýrt að halda í þekkinguna, en það er dýrara að henda henni og ætla sér að finna upp hjólið aftur.

Mér dettur í hug samlíking við það þegar húsnæði er tekið í gegn og það endurbætt.  Það er hægt að gera það á þrennan hátt.  Í fyrsta lagi rífa húsið og byggja nýtt, í öðru lagi rífa allt innan úr því sem hægt er að rífa og byggja upp aftur með nýju skipulagi.  Í þriðja lagi gæti verið hægt að ná sama árangri með því að gera minniháttar skipulagsbreytingar á húsinu.  Auðvitað fer það eftir ástandi hússins hvaða leið er best að fara.  En sama hvaða leið er valin, það verður að byrja á að gera sér grein fyrir hvað það er sem koma á út úr breytingunum, það þarf að gera þarfagreiningu, þá er gerð kostnaðargreining samhliða því sem nýtt skipulag er unnið.  Þegar búið er að gera sér grein fyrir þörfum og kostnaði, þá fyrst er hægt að hefja framkvæmdir.  Þetta sama á við um þegar byggja á upp nýtt stjórnskipulag.  Ef það er nóg að stækka eldhúsið með því að rífa búrið og minnka þvottahúsið, til að ná fram betri nýtingu, til hvers þá að rífa húsið og byggja nýtt? 

Eða er húsið orðið svo fúið að því er ekki við bjargandi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband